
Að beiðni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi tók fyrirtækið Hagrannsóknir sf að sér að meta áhrif hækkaðs veiðigjalds í sjávarútvegi á afkomu lands, þjóðar og ríkissjóðs. Hagrannsóknir sf er að fullu í eigu Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar, sem jafnframt eru skráðir höfundar skýrslunnar
Rangfærsla um hagkvæmni
Þeir félagar fullyrða, sem „þekkta hagfræðilega niðurstöðu“ að framleiðsluþættir leiti þangað sem arðsemin er mest sem aftur leiði til skilvirkrar nýtingar framleiðsluþáttanna. Þar láta þeir undir höfuð leggjast að nefna að þó arðsemi einstakra fyrirtækja af notkun framleiðsluþátta sé mikil þá geta komið upp tilvik þar sem hagnaður eins framkallar tap hjá mörgum öðrum, jafnvel svo að þjóðhagslegt tap hljótist af umsvifum hins arðbæra fyrirtækis. En svona háttar einmitt í sjávarútveginum þar sem stundarávinningur eins aðila getur dregið úr ávinningi allra annarra þegar fram í sækir. Þessu er vel lýst í viðtali í Morgunblaðinu 23. júní 1979 við Ragnar Árnason þar sem hann bendir á óhepplegt samspil frjáls aðgangs að fiskimiðunum og góðrar afkomu af viðbótarveiðiferð: „…menn eiga það á hættu, að taki þeir ekki þetta tog eða þetta kast, þá muni einhver annar gera það. Þetta veldur því að sóknin er of mikil og of stór hluti stofnsins er veiddur.“ Yfirskrift viðtalsins er „Minnka verður sóknina um 40-65%“. Ragnar viðurkennir að beita má veiðigjaldi til að ná því markmiði þó honum líki aðrar aðferðir (kvótakerfi með frjálsu framsali) betur. Ragnari var því vel ljóst fyrir 45 árum síðan að gjaldtaka á framleiðsluþáttanotkun kynni, við tilteknar aðstæður, að verða til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni. Þvert á það sem stendur í fyrirliggjandi skýrslu sem hann er annar höfunda að.
Ósannindi um auðlindarentu
Áhugi skattahagfræðinga á auðlindarentu og auðlindagjöldum hefur aukist undanfarin ár. Hópur sérfræðinga sem norska fjármálaráðuneytið fékk til að gera úttekt fyrir tveimur árum á skattareglum konungsríkisins er engin undantekning, en heill kafli í skýrslu þeirra fjallar um auðlindagjöld (sjá: NOU2022:20 Et helhetlig skattesystem, kafli 13).
Þessi áhugi annarra hagfræðinga að auðlindagjöldum virðist hafa farið framhjá þeim höfundum SFS-skýrslunnar. Þeir fullyrða í neðanmálsgrein að ekki sé til fræðilegur grundvöllur fyrir auðlindarentu í sjávarútvegi (eða öðrum atvinnugreinum). Heimildin fyrir þessari furðulegu fullyrðingu eru skrif þeirra sjálfra! Fullyrðingin gengur þvert á almennar „þekktar hagfræðilegar niðurstöður“ allt frá dögum Adam Smith í Auðlegð þjóðanna fyrir 250 árum til ráðlegginga áðurnefnds hóps skattasérfræðinga til norska fjármálaráðherrans. Ágæti auðlindagjalda er sem sagt vel þekkt innan hagfræðinnar. Adam Smith bendir á að auðlindaarður sé afar heppilegur skattstofn:
„Bæði auðlindaarður og leigugjald af landi eru tekjur þess eðlis að þær renna til eiganda landnæðisins án þess að hann þurfi fyrir því að hafa. Sé hluti af þessum tekjum frá honum teknar til að standa straum af kostnaði við rekstur ríkisins mun það ekki hindra athafnasemi hans. Árleg framleiðsla lands og vinnu í samfélaginu, raunveruleg auðlegð og tekjur meirihluta landsmanna breytist ekki þrátt fyrir slíkar álögur“.
Ekki er auðskilið hvers vegna hagfræðidósent og fyrrverandi hagfræðiprófessor afneita tilvist auðlindarentunnar. Kannski er hin einfeldningslega ályktun þeirra sú að ef engin er arðurinn þá sé tómt mál að tala um auðlindaarð sem skattstofn. En ef við tökum þá félaga á orðinu …








