Til baka

Aðrir sálmar

Velsæld kynslóðanna

Langtíma stefnumörkun er mikilvæg en erfið ef skammtímahugsun ræður för

Helsti vandi stjórnsýslu íslenska ríkisins er skammtímahugsun. Eða skortur á langtímahugsun. Allir sem aka til og frá vinnu finna fyrir því núna að fyrir nokkrum árum var byrjað að veita ríkisstyrki til rafbílakaupa, án þess að gerð væri krafa um förgun díselbíla á móti. Auk þess sem að Ísland er líklega eina ríkið í heimi sem heldur að almenningssamgöngur geti verið reknar í hagnaðarskyni og frestar þess vegna uppbyggingu.

Velferðarríki (e. welfare state) er hugmynd frá síðustu öld sem af mörgum er talin hafa náð bestum árangri á Norðurlöndunum. Ísland vill gjarnan telja sig þar með og er það vissulega sé miðað við Bandaríkin eða Bretland. Velsældarhagkerfið (e. wellbeing economy) er nýrra hugtak en hefur breiðst út víða um heiminn sem viðbragð við vanda þess að einblína einstrengingslega á hagvöxt einan saman. Fyrri grein blaðsins fjallar um velsæld og sjálfbærni.

Ójöfnuður hefur allt of lengi verið talinn utan við svið hagfræðinnar hérlendis og sagður tilheyra pólitíkinni. Ólíkt því sem þekkst hefur undanfarna tæpa tvo áratugi erlendis. Afleiðinguna má meðal annars sjá í því hvernig kynslóðaójöfnuður hefur vaxið hérlendis, en um hann er fjallað í seinni grein blaðsins.

Frjósemi hefur fallið á mettíma hérlendis úr rúmlega tveimur börnum niður í rúmlega 1,5 barn. Raunar hefur álíka fjórðungs fækkun barneigna átt sér stað á síðast áratug í suður og austur hluta álfunnar. Meðaltal Evrópusambandsins yfir fjölda fæddra barna á íbúa er nú orðið álíka og Bandaríkjanna.

Venja er við ríkisstjórnarskipti að fyrirliggjandi stefnumörkun sé hent og ný hafin. Nú er mikilvægt að valið sé að viðhalda því sem vel hefur tekist en lagfæra annað, eins og stuðning við barnafjölskyldur til jafnaðar. Sátt er um áframhaldandi orkuskipti í samgöngum og brátt koma rafdrifnar innanlandsflugvélar. Hins vegar gengur ekki til lengdar að díselrútuferðin út á land sé dýrari en ríkisstyrkt bensíndrifin flugferð úr miðbænum.

Næsta grein