Til baka

Aðrir sálmar

Verðbólga og efnahagsleg staða

Flest virðast vera að ná samhljómi um verðbólguna og vandan sem hún veldur en ástæður hennar eru enn efni til frekari rökræðu

Guðmundur J. Guðmundsson formaður verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar 1982-1996

Samhljómur virðist vera kominn í kór efnahagslífsins um að öll þurfum við nú að vinna saman að því að ná verðbólgunni niður. Önnur lönd hafa flest náð því hraðar og betur en við þrátt fyrir að hafa þurft að glíma við orkuverðs stríðsástand, húshitunar og matarverðs hækkanir sem leiddu til lífskjarakrísu og aukin hernaðarútgjöld, sem við höfum sloppið við hér nema matarkostnað.

Samtök atvinnulífsins spiluðu merkilegt myndband á ársfundi sínum í síðustu viku með verkalýðsleiðtoganum Guðmundi J. Guðmundssyni frá tíma Verbúðarinnar. Hann sagði forstjórum og embættismönnum að ef þeir færu fram úr öðrum í þjóðarsáttarsamningunum þá yrði fjandinn laus, hrun myndi blasa við og þeir fengju það hrun yfir sig.

Stjórnmálamenn eru nú á sama máli um að allir þurfi að leggja sitt af mörkum til að ná niður verðbólgu. En þeirra framlag hefði hugsanlega þurft að koma til í fyrra en ekki á næsta ári.

Alþjóðlega voru tvær raddir háværastar í greiningu á verðbólgunni, en hvorug söng um víxlverkun launa og verðlags. Tenórar í Transitory-hópnum töldu að um tímabundið verðbólguskot væri að ræða sem bíða þyrfti af sér en líklega vanmátu þeir hve mikil verðbólgan síðan varð. Sópranar í Stagflation-hópnum sungu um veraldlega verðbólgukreppu og töldu hættuna kalla á að vextir væru hækkaðir hraðar og meira þannig að bálið væri slökkt með því að sökkva öllu á kaf í vatn.

Nú er almennt talið að vextir hafi verið lækkaðir of mikið og of hratt í kjölfar heimsfaraldurs. Hins vegar er húsnæðisliðurinn alþjóðlega ekki eins sértækur í vísitölumælingunum þar svo að verðhækkun á fasteignamarkaði varð ekki til þess að auka á verðbólgumælinguna eins og hér. Þar er heldur ekki í boði að flýja í kæfandi faðm verðtryggingar. Fjármögnunaraðilar virðast hins vegar alveg lifa það af þar að húsnæðislántakendur hafi fest vexti til 20-30 ára, ólíkt 3-5 árum hérlendis.

Næsta grein