
Undanfarin hef ég kafað ofan í hagfræðikenningar til að leitast við að skilja hvað átti sér stað í heiminum á bóluárunum miklu fyrir hrun. Hér að neðan dreg ég fram atriði sem eru meginvaldar þess að konur sem starfa í beinum mannlegum samskiptum, þ.á.m. umönnunarstörfum, eru taldar lítils „virði“ og eru meirihluti þeirra sem eru með lægstu launin. Skoðum málið nánar.
Ráðandi haghugsun
Ráðandi hagfræðikenningar sem kenndar eru í háskólum eru byggðar á nýklassískri hagfræði sem var sett fram í kring um aldamótin 1900. Þær einblína á framboð og eftirspurn sem drifkraft á bak við framleiðslu, verðlagningu og neyslu á vöru og þjónustu og að skynjun neytenda á verðmæti vöru sé undirstaða virðis hennar. Mikil áhersla er lögð á framleiðni og að auka framleiðni. Ráðandi hagfræði leggur áherslu á manngerða efnislega innviði svo sem brýr, vegi og byggingar o.s.frv. þar sem karlmenn vinna aðallega og fjárfesting í efnislegum innviðum mælist í auknum hagvexti. Geta til að afla tekna á markaði er metin mikils. Þessi hagfræði horfir til þriggja þátta: einstaklingshyggju, hagræðingar og sjálfkrafa leitni í jafnvægi. Því er haldið fram að kyn skipti engu máli. Hins vegar er framlag stórra hópa kvenna „utan marka“ framleiðslunnar, talnanna sem lagðar eru til grundvallar þjóðarframleiðslu sem mæling hagvaxtar er byggður á.
Nýfrjálshyggja, afsprengi nýklassíkrar hagfræði, er stefnulíkan (e. policy tool / policy model) sem nær yfir bæði stjórnmál og hagfræði, sem leitast við að færa stjórn framleiðsluþátta frá hinu opinbera til einkageirans. Hagvöxtur er í fyrirrúmi og opinber afskipti og rekstur er álitinn neikvæður. Mikilvægt telst að efla virkni frjáls markaðsdrifins kapítalisma og leitast er við aðhaldi í ríkisfjármálum, að draga úr stjórnvaldsreglum, minnka opinbert eignarhald, losun hafta, frjáls viðskipti, og einkavæðingu. Nýfrjálshyggja heltók Ronald Reagan í Bandaríkjunum og Margaret Thatcher í Bretlandi á níunda áratugnum og dreifðist þaðan víða þ.á.m. til Íslands þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra. Margt hefur verið gagnrýnt hvað nýfrjálshyggju varðar, t.d. tilhneigingu hennar til að stefna lýðræðinu, réttindum launafólks, dómstólum, samskiptum, menntun og sjálfsákvörðunarrétti fullvalda þjóða í hættu. Eitt sýnilegasta dæmi um afleiðingar nýfrjálshyggju er samdráttur á ríkisútgjöldum (e. austerity) sem og ójöfnuður í heiminum í dag, bæði innan þjóða og milli þjóða. Einnig má rekja alþjóðlegu fjármálakrísuna 2008 og hrunið hér mikið til blindrar nýfrjálshyggju.
Hagfræðinemendur víða um heim mótmæltu því að engin breyting varð á kennslu eftir hrunið 2008. Kennslubækurnar sem stuðst var við voru enn þær sömu og fyrirlestrarnir voru einnig óbreyttir. Nemendur gengu út úr fyrirlestrum „virtra“ hagfræðiprófessora, t.d. í Harvard háskóla. Þeir stofnuðu alþjóðlegt net háskólanema Rethinking Economics og hafa barist fyrir bættri hagfræðimenntun sem er bæði opin fyrir nýjum hugmyndum og rímar við raunheiminn. Andastaða akademískra hagfræðikennara við að innleiða fjölbreytni í kennslu sína hefur hins vegar verið sú að það væri of ruglingslegt fyrir nemendur þeirra. Það afhjúpar vantrú sem prófessorar hafa á getu nemenda sinna til að hugsa, greina og draga eigin ályktanir.
Í þessari greiningu á því hvers vegna konur í umönnunar- og kennslustörfum eru á lágum launum, legg ég áherslu á hagfræðikenningar sem draga fram heildstæðari sýn en ráðandi hagfræðikenningar: femíníska hagfræði og umhyggjuhagfræði.
Þar sem mannleg samskipti og snerting skiptir sköpum, eins og við umönnun eða menntun, er erfitt að auka framleiðni og eru þau störf því ónæm fyrir aukinni framleiðni á vinnumarkaði
Feminísk hagfræði
Nýsjálenski stjórmálafræðingurinn Marilyn Waring er talin guðmóðir femínískrar hagfræði. Hún var snemma gagnýnin á einblíningu á vöxt þjóðarframleislu – með sérstakri tilvísun til bókfærslu þjóðhagsreikninga þar sem olíumengunarslys og stríð teljast til hagvaxtar á meðan að barnauppeldi og heimilishald eru metin virðislaus. Betri nýting, minni sóun og snjallari lausnir heimila draga hins vegar úr mældum hagvexti þó sömu eiginleikar hjá fyrirtækjum geti aukið hann. Marilyn rannsakaði þjóðhagsreikninga sem skilað er inn til Sameinuðu þjóðanna
Bandaríski femínistinn Betsy Warrior setti fram rök fyrir því að framleiðsla og fjölgun vinnuafls sem konur framkvæma væri grundvöllur allra efnahagslegra viðskipta og lífsafkomu, jafnvel þó að það væri ólaunað og ekki innifalið í þjóðarframleiðslu. Heimilis-, umönnunar-, framfærslu- og sjálfboðavinna flokkast sem „ólaunuð“ …








