Atvinnuleysi er blessunarlega lítið hérlendis. Áhyggjur flestra í erlendri verðbólguumræðu beinast helst að því að of mikil hækkun stýrivaxta þar geti aukið atvinnuleysi of mikið við kælingu hagkerfisins.
Virkni vinnumarkaðarins er margþætt og oft sagt að hann sé þriðja stoð efnahagskerfisins við hlið peningamálanna og opinberra fjármála. Framleiðni á vinnumarkaði eykst ekki ef tækniþróun er ekki nýtt eða ef aðflutt ódýrt vinnuafl er látið draga hagvöxtinn áfram án framleiðniaukningar. Sá vöxtur er þá í raun ekki að bæta lífskjör heldur aðeins til þess fallin að auka þennslu. Gylfi Zoega fer vandlega yfir þessi málefni í grein sinni hér í blaðinu.
Peningamál voru rædd á árlegum fundi Viðskiptaráðs í síðustu viku og birtist grein hagfræðings ráðsins nú í blaðinu með áherslu á húsnæðismál. Peningamál og húsnæðismál eru órofa tengd.
Seðlabanki Íslands gaf út ársfjórðungslegt rit sitt, Peningamál, í síðustu viku. Í ritinu er meðal annars áhugaverð rammagrein um græðgis- eða hagnaðardrifnu verðbólguna sem einnig var til umræðu hér í Vísbendingu þá viku. Í báðum tilvikum er vísað til skrifa Jonathan Haskel sem situr í peningastefnunefnd Englandsbanka, vert er að benda á nýja ræðu hans í Warwick háskóla nú í vikunni í framhaldinu.
Áhugavert er að bera saman Ísland og löndin í kringum okkur í þessu samhengi, en jafnframt hvert sé óhætt að seilast til að komast að tiltekinni niðurstöðu. Bent hefur verið á að séu kjarabætur hérlendis skoðaðar frá lægsta upphafspunkti eftir fjármálahrunið, þá eru þær mjög miklar síðasta áratug. Þó gleymist oft í því samhengi að laun voru í raun lækkuð verulega hér eftir árið 2008 með miklu gengisfalli íslensku krónunnar. Flest löndin sem við berum okkur saman við sluppu við þá leiðréttingu á gengi gjaldmiðila sinna og samsvarandi afleiðingar á kjör almennings. Mikilvægt er að muna þessar sögulegu staðreyndir þegar rætt erum vinnumarkað og verðbólgu hérlendis.