Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá 30. nóvember 2017 segir að téð ríkisstjórn muni stíga markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum. Í tengslum við gerð Lífskjarasamnings aðila vinnumarkaðarins birti ríkisstjórnin þann 3. apríl 2019 yfirlýsingu um markviss skref til afnáms verðtryggingar í sjö liðum
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði lágmarkstími verðtryggðra neytendalána lengdur úr fimm árum í tíu ár. Með því móti er komið í veg fyrir verðtryggingu allra eða allflestra tegunda neytendalána, þ.e. annarra en húsnæðislána.
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði vísitala neysluverðs án húsnæðis grundvöllur verðtryggingar í lögum um vexti og verðtryggingu á nýjum neytendalánum.
- Fyrir lok júní 2020 verði lokið athugun á aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði og leitað til erlendra sérfræðinga. Meðal annars verði aðferðafræði við húsnæðisliðinn tekin til athugunar auk svokallaðs vísitölubjaga, þ.e. mögulegs ofmats á mælingu vísitölu neysluverðs vegna kerfisbundinnar mæliskekkju.
- Fyrir lok árs 2020 liggi fyrir ákvörðun um frekari takmörkun við veitingu verðtryggðra jafngreiðslulána að gefnum forsendum um stöðugleika og vaxtastig. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega áhrif á greiðslubyrði tekjulágra og möguleika þeirra til að fjármagna húsnæðiskaup. Þannig væri …