Ísland stendur á mikilvægum tímamótum í öryggis- og varnarmálum. Alþjóðlegt umhverfi hefur tekið djúpstæðum breytingum á síðustu árum og þær ógnir sem ríki standa frammi fyrir eru ekki lengur bundnar hefðbundnum hernaðarátökum eða vörn landamæra. Þær birtast í margþættri og oft illgreinanlegri mynd – með upplýsingaóreiðu, netárásum, efnahagslegum þrýstingi og kerfisbundnum tilraunum til að grafa undan samfélaginu, innviðum og félagslegri samheldni.
Nýjar vaxandi ógnir – grafið undan trausti
Undanfarin misseri hafa fjölþáttaógnir orðið meira áberandi í umræðunni um leið og netárásum gegn Íslandi hefur fjölgað verulega. Í maí 2023, samhliða leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík, urðu Alþingi og fleiri lykilstofnanir fyrir skipulögðum netárásum frá hópum með tengsl við rússnesk stjórnvöld.
Slíkar árásir, netárásir, eru þó aðeins hin sýnilega birtingarmynd fjölþáttaógna. Minna áberandi og mögulega hættulegri eru aðgerðir sem beinast að upplýsingaumhverfinu sjálfu og þar með samfélaginu í heild. Rússneskir aðilar hafa t.a.m. kerfisbundið dælt áróðri inn í stór málalíkön (LLM) sem móta svör gervigreindarkerfa á mörgum tungumálum – þar á meðal íslensku. Með þeim hætti getur röng eða hlutdræg frásögn smám saman orðið hluti af almennri umræðu, gjarnan án …