
„Við erum gestir og hótel okkar er jörðin“ segir í texta Tómasar Guðmundssonar í ljóðinu Hótel jörð. Hér birtast tvö lykilhugtök þegar kemur að ferðamálum og flestir tengja beint við ferðalög fólks. Gestir og hótel, hefðbundnara verður það vart í hugum fólks þegar ferðamálin eru nefnd. Bæði hugtökin bera þó margt meira með sér en það sem blasir við í fyrstu sýn. Þegar kemur að ferðalögum og hver það er sem er gestur, hvar, hvenær og hvernig er margskonar. Segja má að við séum öll ferðafólk, alltaf og öllum stundum. Þegar upp er staðið er einmitt tilveran sjálf eitt ferðalag og gististaðurinn jörðin í öllum sínum óendanlega fjölbreytileika og fegurð. Þessar hugleiðingar gefa vísbendingu um útgangspunkt bókarinnar Ferðamál á Íslandi, sem nú er gefin út í uppfærðri og endurbættri útgáfu frá hinni upprunalegu sem kom út árið 2013. Bókin er þó ekki um einhverskonar heimspekilegar hugleiðingar um tilveru ferðafólks, heldur er um að ræða heildstætt grundvallarrit um ferðamál þar sem fjallað er um allar hliðar ferðalaga fólks og ferðaþjónustu í íslensku samhengi.

Frá því að fyrsta útgáfa kom út hefur mikið gerst í íslenskum ferðamálum og málefnum íslenskrar ferðaþjónustu. Uppfærslan varð því töluvert viðameiri en við bjuggumst við í upphafi og fól meðal annars í sér að höfundar fyrri útgáfunnar, Edward H. Huijbens og Gunnar Þór Jóhannesson fengu Magnús Hauk Ásgeirsson til að koma einnig að skrifunum. Var það sérstaklega gert til að efla umfjöllun um viðskiptahlið ferðamálanna, þar sem höfundar 2013 útgáfunnar koma úr öðrum fræðagreinum; landfræði og mannfræði, en ekki viðskipta- og markaðsfræði. Teljum við að núverandi blanda sé hæfileg í bókinni þar sem í aðra röndina snúast ferðamál töluvert um þá atvinnugrein sem ferðaþjónusta er, en í hina um allt það sem undir er þegar við erum gestir eða gestgjafar. Ferðamálin eru þannig vissulega að hluta til atvinnugreinin ferðaþjónusta sem þarf að skilja með kenningum og tólum viðskiptafræða. En ferðamálin koma einnig inn á öll önnur svið okkar samfélags, þau hafa áhrif á sjálfsmynd okkar og hugmyndir um samfélag og menningu sem og umhverfið og því mikilvægt að gera grein fyrir þeim þáttum samhliða.
Á ferð og flugi
Fólk er stöðugt á ferðinni og það er ákaflega mikilvægt að átta sig á því hvað það þýðir fyrir umhverfi, samfélag, menningu og fólkið sjálft. Þó það að fara í vinnuna á morgnana teljist vissulega ferðalag er ekki þar með sagt að um ferðaþjónustu sé að ræða. Jafnvel þó strætisvagnar, hjólaleiðir og akbrautir teljist vissulega til þjónustu og innviða sem liggja til grundvallar íslenskri ferðaþjónustu rétt eins og þeir þjóna þeim sem þurfa að komast til og frá vinnu. Þannig er ákaflega mikilvægt að átta sig á því hvar hægt er að draga mörkin þegar fjalla á um ferðamál og ferðaþjónustu innan ramma íslensks samfélags og náttúru. Það er til dæmis fjarri því að skýrt sé hver er „túristi“, þó öll höfum einhverja hugmynd um hvað er átt við þegar orðið er nefnt. Það er svo nákvæmlega í því hvernig við skilgreinum og drögum þessi mörk sem mynd fer að færast á ferðamálin.
Þegar farið er að rýna í hvernig sá sem kallaður er túristi fær þann merkimiða skýrist hvað það er sem heldur uppi fyrirbærinu og kemur að því að móta það. Kerfi ferðaþjónustunnar er hins vegar ekki einsleitt. Tökum sem dæmi gest sem kemur til Íslands og er að heimsækja gamla skólasystur sem gesturinn var í námi með fyrir 20 árum einhverstaðar erlendis. Þessi gestur mun nýta sér flug til landsins, sama flug og við nýtum okkur til að komast frá landinu og stendur einnig undir útflutningi á ferskum fiski til að mynda. Flugið er ein megin forsenda íslenskrar ferðaþjónustu en það eru ekki margir sem tengja störf í ferðaþjónustu við störf flugmanna og flugvirkja. Þessi störf verða seint talin láglaunastörf, svo ekki séu nefndir íslenskir flugumferðastjórar – kannski helstu stjórnendur í alþjóðlegu kerfi ferðaþjónustu, allavega á Norður-Atlantshafi.










