Stýrivextir hafa byrjað að lækka, en þó aðeins um innan við einn tólfta hluta. Lítið ber þó á umræðu um það hvernig ætlun stjórnmálaflokkanna sé að vinna á verðbólgunni – sem allir vilja minnka – í snörpum aðdraganda kosninganna sem verða á morgun.
Ekki hefur heldur farið hátt í kosningabaráttu undanfarinna vikna yfirstandandi verkföll eða sú alvarlega staðreynd að atvinnuleysi tvöfaldaðist nýlega milli mánaða. Nema þá sem jákvæðar fréttir til kælingar hagkerfisins með von um minni verðbólgu. Enda var það meðvituð ákvörðun löggjafarvaldsins á tímabili fráfarandi ríkisstjórnar að láta seðlabanka ekki þurfa að taka tillit til atvinnustigsins í þeim nýjum lögum um bankann sem sett voru fyrir fimm árum.
Auk þess hefur lítið farið fyrir lausnum um hvernig bregðast eigi við húsnæðiskrísunni, sem var til umfjöllunar í haustblaði Vísbendingar – þó krísan sé vissulega nú loks viðurkennd, sem er skref en bæði of lítið og of seint. Margar greinar hafa verið skrifaðar um húsnæðismál á árinu og aftast í leiðara haustblaðsins er listi með tenglum.
Í öðrum sálmum síðustu viku nefndum við handbók um siðareglur fyrir ráðherra sem lesefni, líka fyrir þá sem ekki verða ráðherrar, til dæmis þingnefndaformenn, og embættismenn gætu líka haft gagn af. Áður hefur hér í vikuritinu verið fjallað um stjórnsýslulegan vanda stjórnarráðsins, líkt og lokaskýrsla umboðsmanns Alþingis fyrr í haust bar skýrt með sér.
Landsframleiðslan hefur vaxið mikið á kjörtímabili því sem nú endar. Sem er bæði sjálfsagt hafi hún fallið mikið, en einnig til vandræða vaxi hún of mikið – og ofvöxtur valdið útgjaldaþennslu.
Landsframleiðsla mælir líka ekki „heilsu barna, gæði menntunar þeirra eða gleðina í leiknum. Né heldur fegurð ljóðanna eða styrk hjónabandanna, né heldur gáfur í kosningakappræðum eða heilindi opinberra fulltrúa“ eins og Kennedy sagði árið 1968. Þetta á alveg jafn vel við nú og þá.