Til baka

Aðrir sálmar

„Meginvilla okkar tíma“

Þarf ekki að vera tímasetning upphafs eða val milli fiskveiða og skógrækar. Hún getur verið að hafa ekki þá pólitísku forystu um að taka afgerandi afstöðu. Það er ekki hægt að færa sérfræðingum allt vald. Ábyrgðin á því valdi stjórnmálanna er síðan endurskoðuð í kosningum.

The_Report_of_the_Althingi_Special_Investigation_Commission_spread

Það eru kosningar eftir rétt rúma viku. Til þeirra var boðað í skyndi. Þó ríkisstjórnarvandi hafi verið til staðar og einskonar starfsstjórn við völd síðan í vor. Efnahagsmál þjóðarbúsins hafa verið í ólestri, sé horft til langvarandi verðbólgu og hárra vaxta auk húsnæðiskrísu. Úr fjármálaráðuneytinu hafa flúið nokkrir helstu stjórnendur, ráðherrar í aðra stóla, ráðuneytisstjóri til Rómar og skrifstofustjóri yfir í varaseðlabankastjórastól fjármálastöðugleika.

Nýrrar ríkisstjórnar bíður það verk að vinna úr efnahagsvandanum. Skaðinn er enn vaxandi, líkt og nýsamþykkt fjárlög vikunnar bera með sér – því ekki er aflað nægra tekna fyrir útgjöldum. Skattamálin, sem til umfjöllunar eru í annarri grein blaðs vikunnar, eru nauðsynleg en ekki vinsæl í kosningabaráttunni.

Eitt síðasta verk Katrínar Jakobsdóttur í stóli forsætisráðherra fyrr á þessu ári, áður en hún bauð sig fram til forseta, var að gefa út handbók um siðareglur ráðherra sem Siðfræðistofnun Háskóla Íslands samdi. Sem er góð lesning fyrir verðandi þingmenn og væntanlega ráðherra. Vilhjálmur Árnason fjallar á vandaðan hátt um siðfræðilegar greiningar í forsíðugrein Vísbendingar vikunnar.

Meginvilla okkar tíma, eins og kemur fram í tilvitnaðri Vísbendingargrein eftir Mikael Karlsson frá árinu 1987 í grein Vilhjálms, er að halda að sérfræðingar geti leyst úr öllum vanda – nú jafnt sem þá. Vikuritið Vísbending var þá gefið út af Kaupþingi sem var verðbréfafyrirtæki og átti síðar eftir að kaupa Búnaðarbankann í framhaldi af einhverskonar einkavæðingu.

Frétt vikunnar, úr Héraðsdómi Reykjavíkur um að á Alþingi hafi stjórnarskráin verið brotin með breytingu búvörulaga, er ekki til þess fallin að auka traust almennings á löggjafarvaldinu, sem virðist misnotað. Þau ólög juku verðbólgu með hækkun kjötverðs en afnám þeirra tryggir þó ekki lækkun verðbólgu, ekki frekar en lækkun stýrivaxta um hálfa prósentu nú á miðvikudag. Þó vonir auðvitað vænkist við það en hagvöxtur hugsanlega hverfi.

Næsta grein