Íslenskan er auðugt tungumál og henni er oft talið til tekna að geta verið sjálfskýrandi og lýsandi. Nýyrðasmíði er líka talin til kosta þjóðar og tungu. Stundum er þó tungumálinu stolið af okkur og orð tekin gíslingu. Nýlegt dæmi er þegar hannað er nafn á sérstaka deild fyrir hraða aðstoð við heimferð fatlaðra barna af barnaspítala í rafvarinni lögreglufylgd. Almenningi blöskraði hin opinbera nýsköpun og hugtakið heimferðardeild verður væntanlega aldrei notað aftur.
Harmleik almenninga var afstýrt með stýringu á fiskveiðum og gleðileikur kvótaeigenda hófst svo í framhaldinu með framsalinu. Auðlindagjald eða skattlagning auðlindaarðs þykir eðlileg og skynsamleg tekjuöflun hjá nágrönnum okkar, eins og nærtækast er að sjá í Noregi. Áhugaverða hagfræðilega ádeilu á nýja skýrslu um hagrannsóknir á veiðileyfagjaldi og afrakstri auðlinda er að finna hér í blaðinu. Þar er merkilegt þriggja orða hugtak greint: þekktar hagfræðilegar niðurstöður.
Tveggja orða hugtakið almennar íbúðir var búið til með lögum fyrir nokkru. Þær áttu ekki að vera félagslegar en eru þó niðurgreiddar og fyrir tiltekinn hóp sem uppfyllir sérstök skilyrði. Lesendum er bent á að vara sig á því að svokallaðar almennar íbúðir eru ekki fyrir almenning allan. Eftirleikurinn hefur verið sá að færri íbúðir bjóðast á svokallaðri markaðsleigu og hún hækkar enn frekar. Forsíðugrein blaðsins dregur fram tölur og staðreyndir um þróunina og áhrifin á ólíka hópa.
Hérlendis á almenningur í vaxandi erfiðleikum með að greiða hækkandi vexti af skuldum sínum og hækkandi húsaleigu. Hin svokallaða skilvirkni markaða skilar samt sem áður hvorki nægjanlega mörgum íbúðum til sölu eða leigu
Merkasti atburður í alþjóðlega efnahagskerfinu í vikunni var að bandaríski seðlabankinn lækkaði loks stýrivexti sína – um hálfa prósentu – niður fyrir og í 5%. Helsta ástæða hinnar miklu lækkunar er sögð vera staðan á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði. Enda sagðist seðlabankastjórinn vera að þjóna almenningi.