Íslenskur vinnumarkaður er fjölbreyttur og margir möguleikar sem blasa við launþegum þegar kemur að því að velja sér starfsvettvang. Meðal annars stendur val einstaklinga í atvinnuleit milli þess að sækjast eftir vinnu hjá hinu opinbera eða hjá einkafyrirtækjum. Ýmsir hafa velt vöngum um hvort einstaklingar sem kjósa að vinna hjá hinu opinbera séu að einhverju leyti öðruvísi en þeir sem velja einkageirann og rannsóknir hafa sýnt að persónuleiki einstaklinga getur spáð fyrir um starfsval þeirra og atvinnustöðu (Caliendo o.fl., 2014; Holland, 1997). Því hefur einnig verið haldið fram að ákveðnir einstaklingar, með tiltekinn persónuleika, séu líklegri til að stunda frumkvöðlastarf en aðrir (Gartner, 1989) og að frumkvöðlastarf henti betur fyrir suma en aðra (Markman og Baron, 2003).
Í þessari grein er fjallað um rannsókn sem höfundur gerði á því hver birting frumkvöðlaeiginleika er á íslenskum vinnumarkaði þar sem sérstök áhersla var lögð á mun milli einkageirans og þess opinbera sem og áhrif kyns á persónueinkenni sem hafa verið bendluð við frumkvöðlaeiginleika. Innan persónuleikafræðanna hefur verið fjallað um tiltekna persónueiginleika sem hafa verið tengdir við líkurnar á því að einstaklingur stundi frumkvöðlastarf og voru þeir skoðaðir sérstaklega í rannsókninni. Þeir eiginleikar sem rýnt var í voru frumkvöðlaásetningur, áhættusækni, stjórnrót og þættir fimm þátta líkansins sem eru víðsýni, úthverfa, taugaveiklun, samviskusemi og samvinnuþýði (Brandstätter, 2009). Hér verður lögð sérstök áhersla á frumkvöðlaásetning og áhættusækni en sömuleiðis tengsl þeirra við hina þættina. Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á svörum tæplega 600 þátttakenda í fullu starfi á íslenskum vinnumarkaði.
Frumkvöðlaásetningur og áhættusækni
Í lýsandi tölfræðinni kom fram marktækur munur fyrir frumkvöðlaásetning og áhættusækni bæði milli geira og kyns en á myndinni má sjá meðaltöl hvers hóps fyrir sig. Karlar sem starfa í einkageiranum skoruðu hæst á bæði frumkvöðlaásetning og áhættusækni en konur í opinbera geiranum lægst.
Í aðhvarfsgreiningunni kom síðan fram að einstaklingar innan þess opinbera skoruðu að meðaltali 0,28 lægra, á fimm punkta Likert kvarða, á frumkvöðlaásetningi þegar tekið var tillit til annarra eiginleika einstaklinganna. Sömuleiðis kom í ljós að karlar skoruðu að meðaltali 0,37 hærra en konur á frumkvöðlaásetningi sem var í samræmi við tilgátur sem höfðu verið settar fram. Loks kom fram jákvæð fylgni á milli frumkvöðlaásetnings við annars vegar áhættusækni og hins vegar víðsýni, en ekki var fylgni á milli frumkvöðlaásetnings og annarra þátta fimm þátta líkansins.
Þegar munur milli kynjanna var skoðaður kom í ljós að karlar væru áhættusæknari en konur
Þegar nánar var rýnt í áhættusæknina með aðhvarfsgreiningu kom í ljós að einstaklingar sem starfa í einkageiranum eru áhættusæknari en einstaklingar í opinbera geiranum. Einstaklingar innan þess opinbera skoruðu sem sagt að meðaltali 0,19 lægra, á fimm punkta Likert kvarða, en þeir sem störfuðu í einkageiranum. Þegar munur milli kynjanna var skoðaður kom í ljós að karlar væru áhættusæknari en konur, og skoruðu að meðaltali 0,25 hærra, sem var í samræmi við tilgátur sem höfðu verið settar fram. Einnig var áhugavert að áhættusækni var með jákvæða fylgni við bæði víðsýni og úthverfu en neikvæða fylgni við samvinnuþýði, samviskusemi og taugaveiklun. Þannig er marktæk fylgni milli áhættusækni og allra þátta fimm þátta líkansins. Miðað var við 5% marktektarmörk í …









