
Lönd með uppsveiflu í hagkerfinu búa oftast við fólksfjölgun sem knúin er áfram af innstreymi innflytjenda á vinnumarkaðinn. Kanada hefur um árabil nýtt sér markvissa fólksflutninga til að mæta hæfniskorti á vinnumarkaði sínum.
Í sambærilegri bandarískri stefnuskýrslu, sem ber titilinn „Immigration, Employment Growth, and Economic Dynamism“ frá National Foundation for American Policy (NFAP), kemur fram að innflytjendur ýti undir hagvöxt, fjölgun starfa og efnahagslegan athafnakraft (e. economic dynamism) með framlagi sínu til vinnumarkaðar, frumkvöðlastarfsemi og sem nýir neytendur vegna kaupa á vörum og þjónustu. Að auki heldur skýrslan því fram að vísbendingar séu um að innflytjendur geti hægt á útvistun á framleiðslustarfsemi bandarískra fyrirtækja til annarra landa, sem gefur til kynna mikilvægi innflytjenda til að auka innlenda framleiðslu í Bandaríkjunum.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að landsvæði með hærra hlutfall innflytjenda búa við öflugra hagkerfi og hraðari fjölgun nýrra starfa og stofnaðra fyrirtækja. Við þurfum ekki að leita lengra en til ört stækkandi þorpsins Víkur í Mýrdal til að sjá þróun af þessu tagi hér á landi. Hagvöxtur og þensla í sveitarfélaginu er í mikilli uppsveiflu, þorpið stækkar sem aldrei fyrr. Ferðaþjónusta er drifkrafturinn þar að baki og ákalls um aukið vinnuafl og því er helmingur íbúa af erlendum uppruna í Vík um þessar mundir. Mikið er byggt í sveitarfélaginu og jafnframt fjölgar mannvirkjum. Verið er að fjárfesta í uppbyggingu alls konar innviða og húsnæðis til að mæta eftirspurn sem er tilkomin vegna íbúafjölgunarinnar. Ákall er eftir aukinni þjónustu sem og enn fleiri og fjölbreyttari fyrirtækjum til að mæta hraðri fjölgun íbúa.
Innflytjendur hafa tilhneigingu til að vera frumkvöðlar í meira mæli en innfæddir og hærra hlutfall innflytjenda leiðir oft til meiri nýsköpunar og stofnunar fyrirtækja. Samanburðarrannsókn frá Harvard viðskiptaháskólanum leiddi í ljós að innflytjendur leggja að meðaltali tvöfalt meira til frumkvöðlastarfs í Bandaríkjunum en innfæddir.
Innflytjendur hafa mikilvægan sess í bæði ört vaxandi og hnignandi geirum hagkerfisins. Eins og innfæddir eru ungir innflytjendur betur menntaðir en þeir sem eru að fara á eftirlaun. Innflytjendur auka sveigjanleika á vinnumarkaði, einkum í Evrópu.
Ísland og hagvöxtur tengdur innflytjendum á vinnumarkaði
Sérkafli í nýlegri skýrslu OECD um efnahagsvöxt Íslands „Immigration in Iceland: addressing challenges and unleashing the benefits“, tilgreinir að hröð fjölgun innflytjenda hafi fært Íslandi mikilvægan efnahagslegan ávinning, þar á meðal þar á meðal fleira fólk á vinnualdri og stuðlað að því að mæta eftirspurn eftir vinnuafli fyrir vaxandi greinar, einkum ferðaþjónustu og byggingariðnað. Innflytjendastraumur hefur aukið fjölbreytni í færni og hæfni á vinnumarkaði og aukið fjölbreytileika íbúa. Í skýrslunni var einnig lögð áhersla á að án áframhaldandi fólksflutninga myndi íbúum á vinnualdri á Íslandi fækka um 5% samanlagt til ársins 2050. Auk þess myndi aukin fólksfjölgun tengd innflytjendum …








