Til baka

Aðrir sálmar

Endalok sögu einpóla heims

Tvípóla heimur er í óvissu og enginn veit hvernig margpóla heimur snýst

Áttatíu ár eru liðin nú í vikunni frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og er því víða fagnað sem degi sigurs eða frelsunar. Samtímis horfum við þögul uppá mögulega síðustu daga útrýmingar palestínsku þjóðarinnar. Það er viss mælikvarði á mun milli landa hvort opinberlega megi þar kalla það sem nú á sér stað á Gaza þjóðarmorð eður ei.

Sjötíu og fimm ára afmæli heimsstyrjaldarlokanna markaðist af grímum og fjarlægðarreglu en á þeim fimm árum sem liðin eru hefur allsherjar baráttu heimsins gegn veirunni lokið með sigri okkar og tapi vágestsins. En öll töpum við á innrásarstríðinu í Úkraínu og allsherjar eyðileggingunni á ströndinni við Miðjarðarhafið.

Fimmtíu ára fögnuðurinn, árið 1995, einkenndist víða af trú á eins póls heim og jafnvel endalok sögunnar. Sovétríkin voru liðin undir lok og engin ógn augljóslega sjáanleg – hvorki á loftslagssviðinu, fjármálasviðinu eða hernaðarsviðinu.

Krísur á þessum sviðum eru dýrkeyptar, einnig fyrir hið opinbera. Háir raunvextir auka svo vandann við úrlausn efnahagsmála, eins og kemur fram í forsíðugrein vikunnar. Munur hagvaxtar og vaxta sem ríkisskuldir bera er þar lykilatriði sem oft gleymist.

Eins og allir vita þá aukast skuldirnar við áframhaldandi hallarekstur. En fjármögnun ríkissjóða getur þá tekið á sig ýmsar myndir, eins og önnur grein vikunnar dregur fram á áhugaverðan hátt.

Fjárstýringu á ríkissjóði í lýðræðisríki er þó ekki hægt að haga eins og fyrirtækjarekstri og kjósendur eru hvorki viðskiptavinir né hluthafar. Á aðalfundi fyrirtækis gildir vægi atkvæða eftir fjölda eignarhluta, ein króna er eitt atkvæði – svo að sá sem á mest, hann ræður mestu. Í lýðræði er það ekki svo, eða á ekki að vera. Hver og einn einstaklingur á að standa fyrir hverju og einu atkvæði, jafngildum. Harðstjórn minnihlutans er til umræðu í bókarumfjöllun þriðju greinar vikuritsins. En „ef meirihlutanum verður á í mysunni, til hvaða meðala mega þá réttlátu maðkarnir grípa“ er áleitin spurning úr gömlu íslensku dægurlagi.