
Straumhvörf urðu stjórnmálum í Argentínu í nóvember á síðasta ári þegar Javier Milei var kjörinn forseti. Hann átti kjör sitt að þakka óvinsældum fyrri ríkisstjórnar perónista sem hafði mistekist illilega að halda verðbólgu í skefjum og bæta lífskjör þjóðarinnar.
Góðæri fyrri tíma
Fyrir um einni öld síðan var efnahagslíf Argentínu í miklum blóma. Þjóðartekjur á mann voru t.d. hærri en á Spáni og á Ítalíu á þriðja áratug aldarinnar. Íbúafjöldi Buenos Aires var um 2,5 milljónir, um helmingur af íbúafjölda New York og svipaður íbúafjölda Chicago og breiðgötur voru lagðar sem enn þann dag í dag minna á stórveldi. Hagstjórn var skynsamleg í samanburði við það sem á eftir kom, lögð var áhersla á hallalaus fjárlög. Hagvöxtur var knúinn áfram af aðflutningi fólks frá Evrópu, landbúnaði, erlendri fjárfestingu og fjárfestingu í menntun. Hlutfallsleg verð endurspegluðu framboð og eftirspurn á alþjóðamörkuðum og framleiðsluþættir leituðu í hagkvæmustu atvinnugreinarnar. Ríkisvaldið einskorðaði sig við almenna stjórnsýslu, löggæslu, varðveislu eignaréttar, menntun og landvarnir.
Slæm hagstjórn í áratugi
Á fjórða áratuginum breyttust áherslur í hagstjórn á þann hátt að horfið var frá áherslu á hallalaus fjárlög. Með þrálátum hallarekstri jukust skuldir ríkisins og stjórnvöld höfðu sífellt aukin afskipti af efnahagslífinu. Með kjöri Juan Peróns sem forseta árið 1946 fór að síga enn frekar á ógæfuhliðina en kjör hans markaði tímamót í hagstjórn til hins verra. Perón hafði dvalið á Ítalíu og heillast af Benito Mussolini og stjórnarháttum hans og reyndi síðar að innleiða hugmyndafræði Mussolinis í Argentínu, hugmyndafræði sem gengur undir nafninu korpóratismi (e. corporatism). Hún felur í sér höfnun á hugmyndinni um frjáls viðskipti, einstaklingsfrelsi, markaðshagkerfi og reyndar einnig lýðræði. Nú voru það „þjóðarhagsmunir“ sem skiptu máli og þeir voru skilgreindir af stjórnvöldum. Samkrull ríkisvalds, atvinnurekenda og launþegahreyfingar átti að tryggja frið í samfélaginu og í sameiningu var ákveðið hvert hagkerfið skyldi stefna. Ein mistökin sem gerð voru á þessum tíma voru að reyna að framleiða sem mest innan lands og flytja sem minnst inn (e. import substitution), önnur að leggja skatta á bæði innflutning og útflutning. En mestu mistökin voru að gæta ekki að því að afla tekna til þess að standa straum af ríkisútgjöldum. Þess í stað voru peningar prentaðir til þess að greiða ríkisútjöld og verðbólga varð mikil. Fjölgengiskerfi, sem fól í sér millifærslu á milli atvinnugreina, var komið á.
Afleiðing óstjórnarinnar sést á mynd 1 en þar er verg landsframleiðsla á mann í Argentínu borin saman við Ástralíu og Kanada en þessi þrjú ríki eiga það sameiginlegt að hafa hagkerfi sem byggist að verulegu leyti á náttúruauðlindum. Framleiðsla á mann í Argentínu er langsamlega lægst og dregst aftur úr hinum ríkjunum eftir 1950.
Frjálshyggja til bjargar?
Javier Milei var kjörinn forseti í nóvember á síðasta ári. Hann var þekktur fyrir málflutning í sjónvarpi sem byggðist á því sem við köllum frjálshyggju en hann heldur mikið upp á austurríska hagfræði, t.d. skrif hagfræðingsins Murray Rothbard. Það sem gerir hagstjórnartilraun Mileis athyglisverða er að hér er reynt að beita hugmyndafræði austurríska skólans til þess að snúa við heilu hagkerfi sem hefur þjáðst af óhóflega miklum ríkisafskiptum og peningaprentun í perónskum stíl.
Verðbólga var 143% í október 2023 og ójöfnuður mikill og meiri en í því Evrópulandi þar sem hann er mestur og mikil fátækt en um helmingur íbúa var undir fátæktarmörkum.
Milei lagði fram nokkur
stefnumál í kosningabaráttunni:
- Að leggja niður seðlabanka Argentínu og taka upp bandaríska dollarann sem gjaldmiðil.
- Að draga úr ríkisútgjöldum með því að leggja niður fjölda opinberra stofnana og ráðuneyta.
- Að minnka umfang regluverks og láta markaðshagkerfið vera sem mest óhindrað.
Argentína myndi hér fylgja í fótspor El Salvador og Ecuador sem hafa haft dollar sem lögeyri í um tvo áratugi. Dollaravæðing hagkerfisins hefði ýmsa kosti í för með sér. Í fyrsta lagi er dollarinn nú þegar notaður til þess að geyma peningaleg verðmæti á meðan pesó er notaður í viðskiptum. Með því að leggja pesó af sem gjaldmiðil notast peningakerfið við eina …








