Ímyndaðu þér að þú standir úti á stjörnubjartri nóttu í Suður-Frakklandi og skyndilega taki himintunglin að hnita hringi fyrir ofan þig. Næturhiminninn væri ekki lengur svarblátt tóm, heldur minnti frekar á úthaf fullt af galsa brimrótsins. Þetta er tilkomumikil sýn. Hvað værir þú til í að greiða fyrir þessa upplifun?
Vísbendingar eru uppi um að þú sért ekki einn um að vera tilbúinn að opna veskið fyrir einmitt það augnablik sem Van Gogh skóp í sínu frægasta listaverki, De Sterrennacht, árið 1889. Svokallaðar alltumlykjandi upplifanir, immersive experiences, hafa verið að sækja verulega í sig veðrið á listmarkaði. Spurningin sem hvílir á allra vörum er; hvort framlag einkaframtaksins til myndlistarneyslu almennings sé af hinu góða? Er upplifunarbransinn að tæma opinberu listasöfnin í stærstu borgum heims af gestum sínum, eða einfaldlega að stækka kökuna?
Myndlist í almannaþágu
Lykilatriðið í opinberri skilgreiningu Alþjóðaráðs safna, ICOM, er að söfn séu óhagnaðardrifnar[1] stofnanir sem „þjóni samfélaginu“ með fjölbreyttum hætti. Þær listasýningar, sem farið hafa sigurför um heiminn og bjóða endurnýjaða upplifun af helstu verkum listasögunnar, standast því ekki kríteríu ICOM á nokkurn máta. Þær eru hagnaðardrifnar, hafa ekki formlegt almannaþjónustuhlutverk, og hafa engum skyldum að gegna að mynda safneign. Þetta eru ekki söfn, þetta er afþreyingariðnaður.
Um er að ræða ýmist fasta- eða farandsýningar, sem bjóða gestum inn í stór rými sem eru tekin alfarið undir eitt listaverk með ljósvörpum úr nokkrum áttum. Þannig er vatnaliljugarði Claude Monet varpað upp í raunstærð, vatninu undir brúnni gefinn hægur straumur, og úr hátölurum ómar fuglasöngur eða …