Vinna er hafin við fimmta áfanga – eða fjórðu endurskoðun – verndar- og orkunýtingaráætlunar, sem í daglegu tali kallast rammaáætlun, eða jafnvel aðeins ramminn, um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra hefur skipað þriggja manna starfshóp til að skoða og gera tillögur um hvert/hvort verði framhald rammaáætlunar, sem hafi ekki skilað nægilegum árangri hingað til. Hópnum er falið að leggja sérstaka áherslu á að auka skilvirkni í kerfinu í heild og einföldun regluverks. Hópurinn skal einnig leggja mat á hvort virkjun vinds falli undir rammaáætlun.
Markmiðið er að virkja hraðar og virkja meira
Í stuttu máli þá hefur ráðherra skipað starfshóp til að einfalda reglur og flýta fyrir því að hægt sé að leyfa nýjar virkjanir. Verkefnið byggir á nokkrum staðhæfingum sem standast misvel skoðun. Í fyrsta lagi að stjórntækið rammaáætlun hafi ekki skilað árangri og ekki náðst markmiðið að skapa frið um vernd og nýtingu. Afleiðing þess að stjórntækið virki ekki sé að árum saman hafi ríkt kyrrstaða og því hafi nægrar orku ekki verið aflað. Í þriðja lagi er talað um neyðarástand vegna orkuskorts sem við verði að bregðast með vatnsafls- og vindorkuvirkjunum víðsvegar um landið. Gefnar forsendur starfshópsins þarfnast nánari skoðunar og eru alls ekki hafnar yfir vafa. Það sjónarmið hefur svo einnig heyrst að óþarfi sé að taka vindorku inn í rammaáætlun þar sem vindurinn sé ótakmörkuð auðlind og vindorkuver afturkræfar framkvæmdir.
Rammaáætlun er ekki guðleg
Væntingar til rammaáætlunar og viðhorf stjórnmálamanna til þessa stjórntækis eru vandinn frekar en verkfærið sjálft. Rammaáætlun samanstendur af mikilvægum faghópum sem skoða hagsmuni náttúrunnar, hagsmuni orkunýtingar, hagsmuni annarra atvinnugreina en orkugeirans, hagsmuni sveitarfélaga, samfélagslega þætti, minjavernd og margt fleira. Með kortlagningu margra ólíkra þátta fæst yfirsýn sem fullyrða má að sé bráðnauðsynleg áður en ráðist er í stórar óafturkræfar framkvæmdir. En rammaáætlun hefur aldrei verið óskeikul. Hún er heldur ekki guðleg og niðurstaða hennar eru ekki lög. Þvert á móti, eru lög í landinu sem fara ber eftir, líka ef niðurstaða rammaáætlunar brýtur í bága við þau, eða ef lög eru samþykkt eftir að rammaáætlun hefur raðað. Þannig er flokkun rammaáætlunar í nýtingarflokk ekki úrskurðar dómur sem hafin er yfir lög. Niðurstaða rammaáætlunar er fyrst og fremst mikilvægur grunnur fyrir stjórnmálamenn til að byggja sínar ákvarðanir á. En þeir hafa ekki reynst flinkir í því.
Enginn friður um ofsaframkvæmdir
Að einfalda kerfi og auka skilvirkni getur hljómað vel. En einföldun má undir engum kringumstæðum vera á kostnað náttúrunnar, loftslagsins, samfélagsins og réttlátra umskipta. Talsverð óánægja hefur verið með að í nokkur ár dagaði rammaáætlun uppi á Alþingi. Samþykkt ólíkra virkjanakosta í vernd, bið og nýtingu hefur ekki miðað hratt og Alþingi ekki komist að niðurstöðu og þaðan af síður tekist að skapa frið um nýtingu fjölda virkjanakosta víða um land. Ástæðan er einfaldlega sú að stjórnmálamenn stefna í ólíkar áttir og þegar þeir loks komu rammaáætlun í gegnum Alþingi blöstu pólitísku flétturnar og vitleysan við öllum þeim sem fylgjast með.
Ekkert er eðlilegra en að tekist sé á um stórframkvæmdir, þar sem margvíslegir hagsmunir eru undir. Það er óraunhæft að hægt sé að semja frið á óskahraða framkvæmdaaðila. Eðlilegt er að hægt gangi að mynda sátt um stórfenglegar breytingar sem hitta fyrir heil samfélög og varða framtíð okkar allra. Stjórnmálamenn þurfa að skilja það og vinna með fulltrúum almennings og náttúruverndar, en ekki eingöngu með þeim sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, fyrir sig, en ekki samfélagið. Svo mega stjórnmálamenn ekki nota rammaáætlun sem skálkaskjól þegar það hentar, en úthúða henni þegar hún tefur fyrir.
Stjórnmálamenn beri virðingu fyrir eigin verkfæri
Mikilvægt væri nú fyrir stjórnmálamenn að skoða sína ábyrgð á ósætti sem ríkt hefur um orkuframkvæmdir allt frá tímum Kárahnjúkavirkjunar. Engin rammaáætlun, flókin eða einföld, mun leysa stjórnmálin undan ábyrgð bæði á náttúruvernd og stórum framkvæmdum. Aðkoma stjórnmálanna verður að vera trúverðug, skýr, gagnsæ og sönn og byggð á almannahagsmunum. Hagsmunir náttúrunnar eru almannahagsmunir. Pólitísk hrossakaup eru ótrúverðug og varpa rýrð á allt stjórnkerfið og samfélagssáttmálann. Vandi rammaáætlunar hefur fyrst og fremst tengst afskiptum og þrýstingi stjórnmálamanna, sem sjálfir eru undir þrýstingi stórfyrirtækja, samtaka atvinnulífsins, fjárþyrstra sveitarstjórna og fyrrverandi pólitíkusa sem ráðnir hafa verið sem lobbíistar til að vinna stórframkvæmdum fylgi.
Áhersla hefur verið á að koma fleiri hugmyndum í nýtingu en innistæða er fyrir. Betra hefði verið að fara sér hægt frekar en að pressa of mörgum virkjunarkostum í nýtingarflokk, sem stöðvast svo þar af ýmsum ástæðum. Kostum sem ekki reynast hagkvæmir þegar upp er staðið, eða hafa ófyrirsjáanleg áhrif á umhverfið, geta verið vonlausir vegna náttúruhamfara og annarra breytinga í náttúrunni eða standast hreinlega ekki lög. Flokkun rammaáætlunar í verndarflokk er svo kapítuli út af fyrir sig, þar sem einlægt upphefst mikil sókn að jöðrum þeirra svæða, eða inn á þau, með útfærða virkjanakosti undir nýju nafni.
Sanngjörn stjórnsýsla og vandaður undirbúningur er nauðsyn
Yfir 40 vindorkuver eru í undirbúningi víða um land. Þau virðast þeirrar náttúru að stækka að umfangi eftir því sem lengra líður á kynningartímabil hvers þeirra. Og eru þau þó jafnan stór fyrir. Allt tal um að slíkar framkvæmdir séu afturkræfar, vindurinn endalaus og því ekki þörf á stjórntæki eins og rammaáætlun er hættulegt. Vindorkuver krefst mikilla framkvæmda á jörðu niðri og hefur stórfelld áhrif á náttúrusvæði, jarðveg, dýralíf, landslag og útsýni. Slíkar virkjanir þurfa faglegt heildarmat á landsvísu, ekki síður en aðrir virkjanakostir og falla því undir rammaáætlun, eigi að leyfa þá yfirleitt. Lengi framan af kom fram gagnrýni á rammaáætlun, einkum frá umhverfis- og náttúruverndarsinnum sem töldu hana unna á forsendum nýtingar frekar en verndar. Í seinni tíð hefur gagnrýnin komið úr nýtingaráttinni. Því matferli áætlunarvinnunnar tekur tíma og leiðir fram í dagsljósið staðreyndir sem taka þarf tillit til. Sanngjörn stjórnsýsla og vandaður undirbúningur tekur sinn tíma, en er lífsnauðsyn.
Lærum af eigin reynslu og annarra
Nú er stemningin, sérstaklega kringum orkuskipti, líkust því að svo mikið liggi á að virkja að eftirspurn eftir orku sé eina staðreyndin sem máli skipti. Á þeim forsendum væri glapræði að leggja niður eina stjórntækið sem við höfum til að kortleggja heildaráhrif virkjanaframkvæmda á ólíkum svæðum. Nógu mörg eru dæmin um óheyrilegan kostnað og óbætanlegt tjón af illa undirbúnum framkvæmdum sem á endanum eru óraunhæfar og skilja eftir sig stórskaða á náttúrunni, skuldir og eyðileggingu. Vindorkuver í nágrannalöndum eru sum hver orðin dæmi um slíkar framkvæmdir. Umgjörð þeirra engin, eignarhald óljóst og í skattaskjólum, arðurinn farinn úr landi og heimafyrirtæki vindorkuversins farið á hausinn.
Við höfum enn ekki haft tækifæri til að fara svona illa að ráði okkar varðandi vindorkuver, en engin ástæða er til að ætla að allt verði betra hér. Ekki hafa allar framkvæmdir á Íslandi verið frábærar. Stóriðjan aflagða í Helguvík er draugalegur vitnisburður um að kapp er best með forsjá og að stórnotendur orku er ekki endilega það sem við sem þjóð ættum helst að treysta á og virkja fyrir.