
Um þessar mundir stendur gervöll heimsbyggðin á öndinni vegna glannalegra yfirlýsinga 47. forseta Bandaríkjanna um að hann ætli að beita tollum til að leysa því sem næst öll helstu vandamál lands síns. Þeir eiga að verja heimamenn fyrir samkeppni, fá útlendinga til að kaupa bandarískar vörur og þjónustu hvort sem þeim líkar betur eða verr, loka landamærunum fyrir smygli á hvort heldur eiturlyfjum eða innflytjendum, laga hallann á ríkissjóði og raunar gott betur, fjármagna nefnilega líka ríkulegar skattalækkanir svo að það helsta sé nefnt. Þetta á allt að gera án þess að hækka innlent vöruverð, því það hefur hann lofað að lækka. Tollar eru uppáhaldsorð forsetans að hans eigin sögn og kannski ekki að furða ef þeir geta leyst öll þessi vandamál.
Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að tollar geta ekki náð öllum þessum markmiðum. Því fer fjarri en hugsanlega getur forsetinn náð einhverju fram sem hann telur ávinning. Sá ávinningur yrði þó aldrei án verulegs kostnaðar, bæði fyrir Bandaríkjamenn og nágranna þeirra og viðskiptavini.
Hagfræði tolla
Hagfræði tolla er í grundvallaratriðum sáraeinföld, þeir hækka verð fyrir innflytjendur og lækka þau fyrir útflytjendur, þótt skipting byrðanna geti verið misjöfn eftir aðstæðum. Þá draga þeir úr viðskiptum og gera framleiðslu óhagkvæma, færa hana til landfræðilega frá þeim sem gætu sinnt henni á hagkvæmastan hátt til annarra sem gera það með hærri kostnaði.
Ef Bandaríkin koma í veg fyrir það með tollum að Mexíkó geti framleitt og flutt út varning með lægri kostnaði en hægt er í Bandaríkjunum, m.a. vegna lægri launa sunnan megin landamæranna, rýrir það kaupmátt í báðum ríkjunum. Bandaríkjamenn búa ekki til nein hálaunastörf hjá sér með því að færa inn í landið störf við framleiðslu sem nú fer fram í Mexíkó. Það sama á auðvitað við ef þeir hindra innflutning frá Kína.
Það gerir málið enn verra að aðfangakeðjur í Norður-Ameríku flæða fram og til baka yfir landamærin milli landanna þriggja. Framleiðslan er skipulögð til að nýta hagkvæmni slíkra tenginga og verkaskiptingar. Það yrði bæði mjög dýrt og tímafrekt að vinda ofan af því og skilaði engum virðisauka. Þótt Bandaríkin séu stór og öflug hafa þau enga burði til að framleiða sjálf allt það sem flutt er nú inn frá Mexíkó, Kanada og Kína, hvað þá heiminum öllum. Með tíð og tíma gætu þau vitaskuld framleitt meira fyrir innanlandsmarkað en það yrði dýr og óhagkvæm framleiðsla. Störfin sem það myndi skapa yrðu ekki mjög eftirsóknarverð – og á móti myndu fyrirsjáanlega tapast hálaunastörf í útflutningi.
Frá hagrænu sjónarmiði eru þeir himinháu verndartollar sem sá 47. hefur boðað hreint glapræði. Það er þó ekki þar með sagt að hótunin um að leggja þá á sé það augljóslega líka frá þröngum sjónarhóli Bandaríkjamanna. Vandinn er bara að það er glapræði að standa við hótunina, sérstaklega ef það verður gert í langan tíma og gagnvart mörgum löndum. Það myndi ekki bara valda efnahagslegu tjóni, næsta víst má telja að afleiðingarnar yrðu afar óþægilegar fyrir Bandaríkjamenn og því óvinsælar. Slík hótun er því ekkert sérstaklega trúverðug.
Leikjafræði
Leikjafræðin hefur ýmislegt um svona mál að segja. M.a. fékk Reinhard Selten Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1994 fyrir að benda á hve ótrúverðugt er að hafa uppi hótanir sem galið er að standa við. Eins og svo oft áður þá voru vísindin þar að uppgötva eitthvað sem hafði verið vel þekkt áður utan þeirra!
Ein leið til að gera slíka hótun trúverðuga er að reyna að telja fólki trú um að sá sem ræður sé nánast galinn. Það er t.d. í grundvallaratriðum skýring þess að hótanir Norður-Kóreu um að beita kjarnorkuvopnum eru teknar alvarlega. Beiting þeirra yrði fyrirsjáanlega til þess að Norður-Kórea yrði lögð í rúst í gagnárásum en það dugar ekki til að sannfæra nágrannana um að þeir þurfi ekki að óttast vopnin.
Í kalda stríðinu byggði ógnarjafnvægið á því að báðir aðilar gátu gereytt hinum – og þar með heiminum öllum – og hétu því að svara fyrir kjarnorkuárás með gagnárás. Það jafnvægi var þó í eðli sínu óstöðugt því að heimsstyrjöld hefði getað hafist fyrir mistök, þ.e. ef annar aðilinn hefði talið ranglega að hinn hefði ráðist til atlögu. Það hefur sloppið – hingað til.
Í tollastríði getur þurft að sýna vilja og getu til að standa við hótanir með því að leggja á tolla og valda þannig tjóni. Það kallar líka á að mótaðilarnir svari fyrir sig, með tollum eða öðrum aðgerðum sem valda efnahagslegu tjóni hjá þeim sem byrjaði. Kína hefur t.d. boðað að hjóla í Google með rannsókn á samkeppnislagabrotum. Vel er hugsanlegt að ESB láti Google og fleiri hliðstæð bandarísk fyrirtæki finna fyrir sér, með svipuðum rannsóknum eða jafnvel sérstakri skattlagningu eða löggjöf sem þrengir að starfsemi þeirra, sem svar við tollum Bandaríkjanna.
Sé ætlunin að ná fram einhverjum efnahagslegum ávinningi með því að hefja tollastríð verður fyrr eða síðar, helst sem fyrst, að blása stríðið af og geta lýst yfir sigri. Sigur felur þá í sér einhverja eftirgjöf af hálfu þess sem verður fyrir árásinni. Þetta er í raun svipað og kjaradeila með verkföllum, langvarandi verkföll valda miklu tjóni og miklu betra fyrir alla að semja án þeirra.
Markmið tollastríða
Markmiðin með þessu bjástri hjá þeim 47. eru ansi loðin og teygjanleg, þótt hann lofi vissulega miklu. Það gefur honum svigrúm til að lýsa yfir sigri nánast þegar honum hentar. Sem dæmi má nefna að hann blés af tímabundið háa tolla á Kanada og Mexíkó eftir að þau lönd höfðu gefið frekar óljós fyrirheit um betri landamæravörslu. Það var ódýr gálgafrestur fyrir þau tvö lönd en þau eru ekki sloppin enn, fengu bara eins mánaðar frest og raunar er Bandaríkjaforseti þegar búinn að lýsa yfir háum tollum á stál og ál sem mun bitna hart á þeim.
Slíkir tollar eru raunar þegar til staðar en þá á að hækka. Þeir voru lagðir á 2018 af 45. forseta Bandaríkjanna en sá 46. samdi við ESB um að afnema þá á innflutning frá ESB og sá 47. ætlar nú að leggja á enn frekari tolla á þessa málma. Tollarnir sem fyrir eru hafa m.a. leitt til þess að verð á þessum málmum er töluvert hærra á Bandaríkjamarkaði en heimsmarkaði, sem sýnir vel að þeir eru ekki fundið fé fyrir heimamenn. Jafnvel þótt tekið sé tillit til tekna ríkisins af tollunum hafa þeir valdið verulegu tjóni fyrir Bandaríkjamenn. Ein rannsókn mældi tjónið á 1,4 milljarða dala á mánuði skömmu eftir að tollarnir voru lagðir á.
Það flækir töluvert alla samninga um að enda tollastríð að stríðið sem sá 47. hefur hafið er gróft brot á fyrri samningum. Þannig er augljóslega um að ræða brot á reglum WTO og sérstaklega er umhugsunarvert að háir tollar á Kanada og Mexíkó eru gróft brot á fríverslunarsamningi ríkjanna þriggja, sem enginn annar en 45. forseti Bandaríkjanna samdi um og skrifaði undir. Það er því verulega óskammfeilið af 47. forsetanum að …








