Til baka

Aðrir sálmar

Loftið allt lævi blandið

Fyrsta tölublað ársins fjallar mest um áhrif loftslagsbreytinga á þróun hitastigs á jörðinni en það hefur síðan áhrif á öll efnahagsmál og flest viðskipti auk þess að kalla á mikla nýsköpun. Við lítum einnig um öxl og segjum frá merkilegri áratugsgamalli dómsniðurstöðu. Aðrir sálmar blaðsins draga saman þessi efnistök og horfa fram á veg í upphafi ársins 2024.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur Vísbendingar. Líkt og fjallað var um með einum eða öðrum hætti í öllum þeim fjórtán greinum sem birtust í síðasta tölublaði síðasta árs þá eru vinnumarkaðsmálefnin verkefni vetrarins. Verðbólgan verður samhliða að minnka jafnt og þétt á árinu sem nú er nýhafið.

Stóra verkefnið á sviði allra alvöru viðskipta og efnahagsmála eru hins vegar umhverfismálin. Jörðin okkar hlýnaði meira á árinu sem var að líða heldur en nokkru sinni fyrr. Hlýnun sjávar tók einnig ískyggilega kippi bæði í Miðjarðarhafi og hér á Norður-Atlantshafinu kringum okkur. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar taka nú til sjálfbærni og enginn rekstur fær lengur undanþágu. Loftslagsmálin og verndun líffræðilegs fjölbreytileika eru stóru áherslumálin um allan heim.

Skuldirnar sem skapast hafa á undanförnum árum vegna heimsfaraldurs og í framhaldi baráttunnar við hann munu ekki verða greiddar af erlendum kröfuhöfum líkt og þegar ríkissjóður tók á sig kostnaðinn við hrun fjármálakerfisins og endurreisn þess. Ekki verður heldur hægt að leiðrétta verðbólguhækkun húsnæðiskostnaðar með hvalreka frá slitabúum líkt og fyrir áratug.

Kostnaðurinn af veirunni og önnur eftirgjöf undanfarinna ára af tekjum ríkisins sem liggur nú í skuldastabba ríkissjóðs verður ekki greiddur af neinum öðrum en skattgreiðendum hér á landi. Útlendingar munu ekki heldur greiða fyrir okkar hlutdeild í kostnaðinum af baráttunni við loftslagsvánna. Við getum ekki látið á þann kostnað reyna fyrir dómi og við getum ekki heldur fengið undanþágu frá losun eða frekari frest á aðgerðum. Við verðum að standa okkur vel, sem þjóð meðal þjóða – allt annað væri svik við komandi kynslóðir.

Næsta grein