Peningastefnan, og taumhald hennar, er til umræðu í báðum greinum þessa síðasta tölublaðs fyrir sumarfrí. Greining Íslandsbanka bendir til að hægt verði að hefja lækkun vaxta eftir sumarið. Seðlabankinn byggir sínar greiningar á stöðunni út frá uppfærðum tölum Hagstofunnar.
Halda þarf fastar í tauminn, nú þegar við erum komin nánast heim í hlað, vegna þess að í ljós kom eftir uppfærðar mælingar, að við fórum hraðar en áður var talið á stökkinu úti á engjunum í fyrra og hitteðfyrra.
Lesendum er bent á að taka tillit til eyðslu sinnar í sumarfríum síðustu tveggja ára, sem komið hefur í ljós að var full mikil, nú þegar sumarfrí þessa árs hefst. Er þess vænst að þá geti sumarfríið á næsta ári orðið aðeins ódýrara.
Svo haldið sé áfram með líkingu við útreiðar, þá er mögulegt að gjörðin sem heldur hnakknum sé það sem herða þarf, frekar en taumhaldið. Aðhaldsleysi í opinberum útgjöldum, með því að sleppa út gjörðinni ítrekað um eitt gat enn veldur líklega verðbólgunni og hnakkurinn sígur á hlið.
Tvöhundruðasti Simpsons þátturinn (nr. 22 í 9. seríu) sem kallaðist „Trash of the Titans“ frá árinu 1998 vann til Emmy verðlauna. Þar var Hómer Simpson kosinn hreinlætisráðherra bæjarins út á slagorðið: „Getur ekki einhver annar gert það?“ Niðurstaðan í lok þáttar varð sú að Hómer hrökklaðist úr embætti og færa þurfti bæinn til vegna ruslahaugsins sem stefna hans skapaði.
Sú kynslóð Íslendinga sem greiðir nú fjármagnskostnað byggðan ofan á 9,25% stýrivexti í ár mun einnig þurfa að greiða fyrir halla ríkissjóðs, hreinsa upp ruslið og bregðast við loftslagsvánni. Á meðan að efnahagsstjórn okkar tíma virðist byggjast um of á ístöðuleysi, Laffer-kúrvunni og hugmyndafræði Hómers Simpsons.
Vísbending kemur næst út, að loknu sumarhléi, eftir verslunarmannahelgina. Lesendum er bent á fjölda áhugaverðra greina um ferðamál í sumarblaðinu sem kom út fyrir tveimur vikum.