Þeirri skoðun er stundum hreyft að viðtekin hagfræði hafi brugðizt síðustu ár og þarfnist gagngerrar endurskoðunar. Þá er fyrst og fremst átt við það að hagfræðingar hafi fæstir séð fyrir hremmingarnar sem riðu yfir banka og aðrar fjármálastofnanir í okkar heimshluta 2007-2008 og hafi því ekki megnað að vara við þeim. Það var broddur í spurningu Elísabetar Englandsdrottningar sem hún lagði fyrir fríðan flokk hagfræðinga sem hún hafði kvatt á sinn fund: Hvers vegna sá ekkert ykkar þetta fyrir?
Hagfræði og hugrekki
Spurningu drottningar var hægt að svara í tvennu lagi.
Fyrst þetta: Hagfræði og hagfræðingum er ekki og var aldrei ætlað að geta sagt fyrir um óorðna hluti. Það væri með líku lagi óhyggilegt og ósanngjarnt að áfellast jarðfræðinga fyrir að sjá ekki fyrir öll eldsumbrot og alla landskjálfta. Engum dettur í hug að snúa baki við jarðfræði sem fræðigrein af þeim sökum. Sama máli ætti jafnan að gegna um hagfræði. Hagfræðingum var aldrei ætlað að geta sagt fyrir um framtíðina.
En þetta er ekki allt. Hagfræðingar, einkum þeir sem starfa í bönkum og stjórnsýslu, leggja fram hagspár í gríð og erg. Stóra bólan sem sprakk 2007-2008 var svo þrútin og umræðan í aðdraganda hennar svo galin að miklu fleiri hagfræðingar en raun varð á – og aðrir! – hefðu að réttu lagi átt að stíga fram og vara við ruglinu. Það var því ekki hagfræðin sem brást heldur hugrekkið.

Árangur
Hagfræði hefur gert mannfólkinu mikið gagn í tímans rás, kannski mest þegar hún lagði upp í hendur stjórnvalda …