Til baka

Grein

Matvöruverð og verðmælingar

Nýjungar í tækniþróun og valdefling almennings eykur aðhald gegn verðhækkunum og bæti upplýsingagjöf sem stuðlað getur að lækkun verðbólgu

Á undanförnum árum hefur verð á matvöru verið einn af þeim liðum sem ýtt hefur undir verðbólgu hér á landi. Þær hækkanir má rekja til ólíkra þátta, t.d. framboðshnökra hér á landi og alþjóðlega auk mikillar eftirspurnar innanlands.

Verðlagseftirliti ASÍ er ætlað er að veita aðhald gegn verðhækkunum. Eftirlitið hefur tekið stakkaskiptum frá ársbyrjun 2023. Verðlagseftirlit ASÍ á dagvöru byggir í dag á heildarsöfnun verðupplýsinga með rafrænni vöktun og verðskönnun á vettvangi. Þetta gerir eftirlitinu kleift að gera mun ítarlegri samanburð á verðum en áður. Afraksturinn hefur verið greining á áhrifum útsölu á byggingarvörumarkaði, verðstríð í sölu páskaeggja, rangar verðmerkingar í verslunum, og samdægurs verðathuganir á verðlagi þegar ný verslun kom inn á markaðinn í ágúst.

Hundrað milljón verðpunktar

Grunnur eftirlitsins tekur nú inn 350.000 daglega verðpunkta úr vefverslunum og um 18.000 vikulega verðpunkta úr verslunum sem ekki birta verð á vefnum. Afrit af rafrænum gögnum og myndum eru geymd til að tryggja rekjanleika. Rafrænir verðpunktar á skrá eru nú um 120 milljón talsins og verðpunktar teknir í verslunum nálgast eina milljón.

Tímarunurnar sem grunnurinn geymir leyfa verðsamanburð aftur í tímann, til dæmis þegar falsafslættir eru auglýstir eða þegar nýjar aðferðir til að bera saman verslanir eru innleiddar. Til stendur að gera verðsögu á vörum aðgengilega í gegnum smáforrit verðlagseftirlitsins, Nappið, á næstunni. Verðsaga er nú þegar aðgengileg á vef verðlagseftirlitsins, verðlagseftirlitið.is.

benni-graf

Almenningur tekur þátt í verðlagseftirliti

Heildarsöfnun rauntímaverðupplýsinga gerir verðlagseftirlitinu kleift að miðla gögnum með öðrum hætti en með gömlu aðferðafræði staðlaðra verðkannana. Verðlagseftirlitið gaf fljótlega út smáforritið Prís ,í dag þekkt sem Nappið, til að leyfa almenningi að bera saman verð á vörum með því að skanna strikamerki.

Nýverið var gefin út útgáfa tvö af Nappinu, þar sem neytendur geta loks tekið þátt í verðlagseftirliti. Nú geta notendur sent inn verðgögn, þ.e. Nappað verðhækkanir, þegar þeir koma auga á að verð hafi breyst. Tækifæri til upplýsingamiðlunar og aðhalds á þessu formi eru margvísleg og langt í frá fullnýtt.

Nýir tímar, nýjar verslanir

Verð á matvöru hækkaði óvænt í júlí, um 1,1% samkvæmt Hagstofu, langt umfram væntingar greiningaraðila, og átti þannig þátt í að undirliggjandi verðbólga jókst milli mánaða. Af gögnum verðlagseftirlitsins mátti þó ráða að ekki var um almennan verðþrýsting að ræða. Hækkunartaktur Bónus og Krónunnar var þannig að mestu sá sami og undangengna mánuði. Gögnin bentu til þess að óvænt hækkun í verslunum Samkaupa, þ.e. Nettó, Kjörbúðinni og Krambúðinni hefði vegið þungt þann mánuðinn. Þær hækkanir gengu að hluta til baka í ágúst.

Opnun lágvöruverslunarinnar Prís voru tíðindi eftir áraraðir án mikilla sviptinga á matvörumarkaði. Áhrif innkomu Prís hafa verið umtalsverð. Bæði lækkaði verðlag á matvöru í ágúst og september en einnig hefur innbyrðis röðun verslana breyst. Bónus er þannig ekki lengur ódýrasta verslunin á markaðinum. Jafnframt hefur verðlag í Nettó lækkað og verðlag þar færst nær Bónus og Krónunni.

Mælingar verðlagseftirlits gefa skýra mynd af verðþróun á matvöru

Mæling vísitölunnar hjá verðlagseftirlitinu gefur gott forspárgildi um hvernig matvöruliður vísitölu neysluverðs þróast, þó aðferðafræði sé lítillega frábrugðin. Ekki er vegið eftir einstökum vörum, heldur aðeins vöruflokkum, hjá verðlagseftirlitinu. Einnig er allur mánuðurinn undir í athugun verðlagseftirlitsins. Gögn um þróun vörukörfunnar eru aðgengileg á heimasíðunni verðlagseftirlitið.is og uppfærast daglega að lokinni fyrstu viku hvers mánaðar.

Mánaðarlegar samantektir leiða í ljós að verðlag flestra verslana, vegið eftir vöruflokkum, hefur iðulega hækkað um 0-0,5% á mánuði þetta árið. Stærstu frávikin hafa verið í verslunum Samkaupa, sem hækkuðu mjög í júlí og lækkuðu í ágúst og september. Athyglisvert er að ódýrari Samkaupsverslanirnar tvær eru nú nær lægsta verði en í mars, en dýrari verslanirnar tvær fjær.

Betri gögn inn, betri gögn út

Með bættri aðferðafræði og mun stærra gagnasafni er nú orðið auðveldara að rekja orsakir verðlagsbreytinga, skoða verðsveiflur á vöruflokkum eftir árstíðum og fletta ofan af prettum í verðlagningu. Fyrsta ári gagnasöfnunar er lokið, en nýting gagnanna er rétt að byrja.

Næsta grein