Þegar Friðrik Skúlason fór að selja vírusavarnir um allan heim seint á síðustu öld kom upp ákveðið vandamál. Útflutningsskýrslur kröfðust þess að menn tilgreindu hversu mörg kíló útflutningurinn hefði verið. Eftir talsvert stapp fékkst þessu breytt og Ísland hætti að vera einvörðungu frumframleiðsluhagkerfi.
Frá því internetinu og EES skolaði á strendur okkar hefur staðan gjörbreyst. Nýsköpun hefur verið ástunduð af miklum krafti í flestum útflutningsgeirum með verulegum árangri. Sumt hefur gengið vel, annað síður eins og gengur en heildarstaðan er jákvæð.
Okkur hefur tekist að slíta þetta frá frumframleiðsluhagkerfinu en nýta reynslu þaðan til að byggja upp stöndugan útflutning.
Í hugbúnaðargeiranum hefur byggst upp þekking og reynsla sem kemur nú hverju nýsköpunarfyrirtækinu á fætur öðru á koppinn, þar sem erlendar tekjur myndast upp úr engu. Það þarf ekki að virkja neitt aukreitis til að knýja fartölvurnar sem kóðinn er smíðaður á, þetta er alfarið bókvit sem sett er í askana.
Fjárfesting í syllum
Viðhorfsbreyting hefur orðið gagnvart tilraunum. Verkefni sem ná ekki flugi skila reynslu sem hægt er að byggja næstu verkefni á, sem er dýrmætt.
Þau sem unnið hafa að útflutningsverkefnum í hugbúnaði hafa uppgötvað það hvað heimurinn er stór. Svo stór að jafnvel þegar mörkuðum er skipt upp og sótt er inn á ákveðnar syllur, sem hljóma eins og óttalegt smotterí í íslensku samhengi, getur verið eftir miklu að slægjast.
Skalinn er ótrúlegur. Miðasala fyrir 142 milljarða króna um allan heim rann í gegnum kerfi Mobilitus á árinu 2018. Calidris sá um bestanir á bókunum fyrir stærstu flugfélög …