
Norræna ráðherranefndin hefur samþykkt fjármögnun fyrir verkefnið „Nordic Regenerative Tourism“ (NorReg) í þriðja sinn. Verkefninu, sem ber íslenska heitið Nærandi ferðaþjónusta á Norðurlöndum, er stýrt af Íslenska ferðaklasanum fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
NorReg er þróunarverkefni sem hefur það að meginmarkmiði að styðja lítil og örsmá fyrirtæki (e. small and micro-sized enterprizes) í ferðaþjónustu við að innleiða forsendur nærandi ferðaþjónustu í starfsemi sína. Jafnframt styður NorReg við starfsemi svæðisbundinna samtaka ferðaþjónustu, klasa og markaðsstofa, með því að þróa verkferla og tól sem styðja við vöruþróun og rekstur á forsendum nærandi ferðaþjónustu.
Hvað er nærandi ferðaþjónusta?
Nærandi ferðaþjónusta (e. regenerative tourism) er nálgun á uppbyggingu og þróun innan ferðaþjónustu þar sem velsæld og jafnvægi náttúru og samfélaga er höfð að leiðarljósi. Byggt er á þeirri meginhugsun að íbúar, starfsmenn í ferðaþjónustu og gestir séu öll hluti af sama menginu; ferðaþjónustan hafi áhrif með margvíslegum hætti á líf fólks og umhverfi og verði einnig fyrir áhrifum af samskiptum sínum við gesti, íbúa og náttúru. Nærandi ferðaþjónusta sprettur þannig upp á grunni þess skilnings að innan ferðaþjónustunnar þurfi heildstæða, framsýna hugsun, sem bæði hlúi að sameiginlegum gæðum og gildum okkar allra, og kalli okkur til ábyrgðar gagnvart eigin athöfnum.
Markmið nærandi ferðaþjónustu er að ferðaþjónustufyrirtæki og gestir þeirra hafi jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og náttúru en einnig að rekstur fyrirtækjanna og framboð afþreyingar og þjónustu geri gestum áfangastaðarins kleift og ljúft að taka þátt í að styrkja og leggja til áfangastaðarins til framtíðar. Markmiðið er að skilja við áfangastaðinn í betra ásigkomulagi en áður en til heimsóknarinnar kom. Það er hægt með markvissum nálgunum í rekstri, upplýsingum og afþreyingartækifærum sem dýpka þekkingu gesta á áfangastaðnum og gera þeim kleift að láta gott af sér leiða.
Hugmyndafræði nærandi ferðaþjónustu
Rekja má rætur nærandi ferðaþjónustu til nýlegra strauma í öðrum atvinnugreinum, s.s. landbúnaði og arkitektúr. Þar er byggt á þeirri grunnhugsun að öll lifandi kerfi, náttúra, jarðvegur og manngert umhverfi séu innbyrðis tengd. Athafnir okkar hafa þannig áhrif á allt umhverfið í kringum okkur, náttúru og mannvist og þannig þurfum við ætíð að hugsa heildrænt í okkar athöfnum, hvort sem þær fela í sér jarðrækt, byggingar og skipulag, eða ferðaþjónustu.
Innan ferðaþjónustunnar eru staðbundnar lausnir mikilvægar, vegna þess að allir staðir eru einstakir og vilja skapa gestum sínum einstakar minningar. Jafnframt er mikilvægt að samhljómur sé milli þess sem ferðaþjónustan tekur sér fyrir hendur og umhverfisins sem hún starfar innan. Lykilatriði er að ferðaþjónustan á hverjum stað skilgreini sig innan samfélagsins, en ekki sem utanaðkomndi aðili sem sé að „nýta sér“ staði og náttúru. Lykilsetningin í allri stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir nærandi ferðaþjónustu er: „Hvaða hlutverki viljum við að ferðaþjónustan gegni hér á þessum stað?“ Þjónustuaðilar og aðrir heimamenn taka þannig höndum saman um að móta framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna, þar sem lykilþáttur er að auka velsæld íbúa, bjóða þjónustu og vörur sem byggja á sögu og séreinkennum staðarins og sem gerir það eftirsóknarvert fyrir gestinn að eyða tíma á staðnum.
Víða á Norðurlöndum er ferðaþjónustan mikilvæg atvinnugrein, sem styrkir byggðarlög og bætir lífsskilyrði íbúa. Ferðaþjónustuaðilar geta verið lykilaðilar við að næra og styrkja sjálfsmynd, menningarstarfsemi og virðingu fyrir náttúru og umhverfi á sínu svæði. Það er kjarni nærandi ferðaþjónustu og smærri byggðarlög eru því kjörinn vettvangur til þess að skoða þau tækifæri sem í henni felast.
Mikilvægi samfélagsmiðaðra lausna
Eins og fram hefur komið eru staðbundnar lausnir og nálganir mikilvægar innan nærandi ferðaþjónustu. Einstakir staðir búa að einstökum tækifærum en einnig við einstakar áskoranir. Alhliða lausnir eiga þannig sjaldnast við, en það er mikilvægt að geta speglað sig í öðrum, deilt reynslu og lært hvert af öðru. NorReg skapar vettvang fyrir slíkar umræður fyrir rekstrar- og stuðningsaðila í norrænni ferðaþjónustu.
Norðurlöndin sem dæmi
Norðurlöndin standa framarlega í vöruþróun sem fellur að gildum nærandi ferðaþjónustu og hafa háleit markmið þegar kemur að því að vinna saman að auknum gæðum sjálfbærni. Strjálbýli einkennir mörg svæði innan Norðurlandanna og smá og örsmá fyrirtæki eru einkennandi fyrir ferðaþjónustuna. Þessi veruleiki kallar á skilning og aðlögun að sérstökum þörfum, áskorunum og viðeigandi aðferðum fyrir þessi fyrirtæki til þess að …









