
Seðlabanki Svíþjóðar fagnaði 300 ára afmæli sínu 1968 með því að stofna hagfræðiverðlaun í minningu Alfreds Nobel og hafa þau æ síðan verið talin til Nóbelsverðlauna. Þetta voru þau ár þegar bankinn hafði fleiri garðyrkjumenn en hagfræðinga í þjónustu sinni.
Brautin rudd
Verðlaunin voru fyrst veitt 1969 Norðmanni og Hollendingi sem ruddu brautina að notkun tölfræði í hagfræði og fluttu hagfræði með því móti úr flokki þeirra greina þar sem fræðileg rök eru í fyrirrúmi (líkt og í heimspeki og stærðfræði) yfir í flokkinn þar sem fræðileg rök þurfa að haldast í hendur við reynslurök studd mælingum og tölfræðilegum athugunum (líkt og í eðlisfræði og líffræði).
Næstur í röðinni var Paul Samuelson 1970. Hann var prófessor á MIT, einn áhrifamesti hagfræðingur 20. aldar. Hann lagði í doktorsritgerð sinni grunninn að notkun stærðfræði í hagfræði, stillti hagfræði upp við hlið eðlisfræðinnar, birti mikilvægar greinar í nær öllum sérgreinum hagfræðinnar og skrifaði næstfyrstu og í senn áhrifamestu alhliða kennslubókina handa byrjendum 1948 (nú í 20. útgáfu). Æ síðan eru allar slíkar bækur steyptar í sama mót. Hann skrifaði lengi dálka um efnahagsmál handa almenningi í Newsweek þriðju hverja viku. Hann var einn með öllu, eins og sagt er, andaðist í hárri elli 2009 og eyddi síðustu árum ævinnar í að birta greinar í líffræðitímaritum.
Sú rödd hafði heyrzt að eðlisfræði dauðra hluta ætti ef til vill síður við sem fyrirmynd handa hagfræðingum en líffræði sem fjallar um lifandi verur. Newton hafði sagt þegar hann tapaði stórfé á bólu sem sprakk: Ég get sagt fyrir um gang himintunglanna, en ekki um æði mannanna. Kannski var Samuelson að leita leiða í líffræði til að teyma hagfræði inn á nýjar brautir. Ég sat einu sinni til borðs með honum í fámennum kvöldverði í New York. Það fannst mér eins og að hitta Paul McCartney sem ég sá þó aðeins og heyrði af fáeinna metra færi.
Árin liðu. Frá öndverðu hafa Nóbelsverðlaunin í hagfræði verið veitt 95 mönnum, þar af 66 Bandaríkjamönnum, tíu Bretum, fjórum Frökkum, þrem Norðmönnum, tveim Hollendingum, tveim Indverjum og tveim Svíum. Finnar, Ísraelar, Kanadamenn, Rússar, Tyrkir og Þjóðverjar eiga einn verðlaunaþega hvert land. Þrjár konur eru í hópnum, tveir stjórnmálafræðingar, einn stærðfræðingur og einn sálfræðingur. Hér eru verðlaunahafarnir flokkaðir að mestu eftir háskólunum þar sem þeir vinna frekar en eftir upprunalöndum. Væri reglunni fylgt út í æsar myndi hlutdeild Bandaríkjanna í hópnum hækka enn frekar. Langflestir eru verðlaunaþegarnir alls óþekktir meðal almennings, en sumir eru þó vel kunnir og þá aðallega fyrir blaðaskrif.
Verðugir verðlaunahafar
Breið sátt hefur ríkt um verðlaunin í hópi hagfræðinga frá öndverðu. Sjaldan hefur því verið haldið fram að óverðugum mönnum hafi verið veitt verðlaunin ólíkt því sem á við um bókmenntaverðlaunin sem gengu sumum helztu rithöfundum heimsins úr greipum, þar á meðal Leo Tolstoy, Henrik Ibsen, Mark Twain, Anton Chekov, August Strindberg, Karen Blixen, Graham Greene og Jorge Luis Borges.
Þeir sem efast um réttmæti Nóbelsverðlauna í hagfræði með þeim rökum að hagfræði sé mjúk vísindi í andstöðumerkingu við harða eðlisfræði og hagfræðingar geti aldrei komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut hafa á röngu að standa frá mínum bæjardyrum séð. Helztu kennslubækur í hagfræði eru svo að segja næstum allar eins líkt og í eðlisfræði. Óleyst mál í hagfræði eiga ýmislegt sammerkt með óleystum gátum eðlisfræðinnar. Ágreiningur meðal eðlisfræðinga um efnisatriði er sízt minni en meðal hagfræðinga. Hagfræðinga greinir til dæmis á um hvort nauðsynlegt sé að tryggja óyggjandi …








