Seðlabanki Svíþjóðar fagnaði 300 ára afmæli sínu 1968 með því að stofna hagfræðiverðlaun í minningu Alfreds Nobel og hafa þau æ síðan verið talin til Nóbelsverðlauna. Þetta voru þau ár þegar bankinn hafði fleiri garðyrkjumenn en hagfræðinga í þjónustu sinni.
Brautin rudd
Verðlaunin voru fyrst veitt 1969 Norðmanni og Hollendingi sem ruddu brautina að notkun tölfræði í hagfræði og fluttu hagfræði með því móti úr flokki þeirra greina þar sem fræðileg rök eru í fyrirrúmi (líkt og í heimspeki og stærðfræði) yfir í flokkinn þar sem fræðileg rök þurfa að haldast í hendur við reynslurök studd mælingum og tölfræðilegum athugunum (líkt og í eðlisfræði og líffræði).
Næstur í röðinni var Paul Samuelson 1970. Hann var prófessor á MIT, einn áhrifamesti hagfræðingur 20. aldar. Hann lagði í doktorsritgerð sinni grunninn að notkun stærðfræði í hagfræði, stillti hagfræði upp við hlið eðlisfræðinnar, birti mikilvægar greinar í nær öllum sérgreinum hagfræðinnar og skrifaði næstfyrstu og í senn áhrifamestu alhliða kennslubókina handa byrjendum 1948 (nú í 20. útgáfu). Æ síðan eru allar slíkar bækur steyptar í sama mót. Hann skrifaði lengi dálka um efnahagsmál handa almenningi í Newsweek þriðju hverja viku. Hann var einn með öllu, eins og sagt er, andaðist í hárri elli 2009 og eyddi síðustu árum ævinnar í að birta greinar í líffræðitímaritum.
Sú rödd hafði heyrzt að eðlisfræði dauðra hluta ætti ef til vill síður við sem fyrirmynd handa hagfræðingum en líffræði sem fjallar um lifandi verur. Newton hafði sagt þegar hann tapaði stórfé á bólu sem sprakk: Ég get …