Í október síðastliðnum var tilkynnt að Claudia Goldin hlyti hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans í ár fyrir að auka skilning á vinnumarkaði kvenna og fyrir að varpa ljósi á ástæður kynjamunar á launum og vinnumarkaðsþátttöku. Hagfræðiverðlaunin voru fyrst veitt árið 1969 og síðan þá hafa 93 einstaklingar hlotið verðlaunin. Fyrsta konan til þess að fá Nóbel í hagfræði var Elinor Ostrom árið 2009 fyrir rannsóknir sínar á hagstjórn auðlinda. Esther Duflo fékk svo verðlaunin fyrir framlag sitt til þróunarhagfræði árið 2019 og var þá jafnframt yngsti einstaklingur sögunnar til þess að hljóta Hagfræðiverðlaunin, 46 ára gömul. Claudia Goldin er þriðja konan til þess að hljóta Nóbelsverðlaunin í hagfræði auk þess að vera sú fyrsta sem deilir þeim ekki með öðrum, en algengast er að tveir til fjórir einstaklingar deili verðlaununum.
Claudia Goldin er fædd í Bandaríkjunum árið 1946. Hún lauk doktorsnámi frá Chicago háskóla árið 1973 og hefur síðan þá kennt og stundað rannsóknir við ýmsa háskóla í Bandaríkjunum. Frá árinu 1990 hefur hún starfað við hagfræðideild Harvard háskóla, þar sem hún var fyrsta konan til þess að fá fastráðningu. Hún var einnig fyrsta konan sem var boðin fastráðning við hagfræðideildirnar í Princeton háskóla og við Pennsylvania háskólann. Í rannsóknum sínum sameinar Claudia hagfræði, sagnfræði og tölfræði til þess að greina breytingar á vinnumarkaði kvenna yfir 200 ára tímabil. Hún beinir ljósi sínu að þeirri þróun sem hefur orðið á launum og vinnumarkaðsþátttöku kvenna og hefur í kjölfarið rannsakað helstu orsakir þeirra breytinga sem hafa átt sér stað frá árinu 1790 til …