Til baka

Aðrir sálmar

Nýsköpun í hagstjórn

Nýskipan í ríkisrekstri varð vinsælt hugtak á þeim tíma sem skipavogin var fundin upp. Ný lög um opinber fjármál tóku gildi fyrir átta árum en samt hefur hallarekstur verið ríkjandi á þeim tíma samhliða miklum hagvexti. Nú stefnir hagvöxtur í hálft prósent á meðan verðbólga er yfir sex. Það gæti orðið mjög slæm blanda stöðnunar og hárrar verðbólgu.

deilimynd-asgeirbrynjar

Sænska hagkerfið býr við hve minnstan hagvöxt í okkar heimshluta. Þar lækkaði Riksbanken stýrivexti aftur í vikunni og er búist við þremur vaxtalækkunum enn til ársloka. Hérlendis voru mun hærri stýrivextir ekki lækkaðir í vikunni, ekki frekar en allt síðastliðið ár, þrátt fyrir að hagvöxtur hér stefni nú að núlli.

Íslensk hagstjórn virðist oft miða að því að ná sem mestum hagvexti og stundum stjórnlausum. Mögulega til þess að hver sem er geti stjórnað ríkisfjármálum hvernig sem er. Svo þegar í óefni er komið, til dæmis í vegakerfinu þá er kynnt átak til innviðafjárfestinga upp á rúma hundrað milljarða, sem felur í raun í sér að vinna upp hala frá þeim tíma sem framkvæmdum var ekki sinnt. Svipað á við, þegar kynnt er skattalækkun með lægra skattþrepi, eða hækkunum á tilfærslum sem í báðum tilfellum eru í raun aðeins verðbætur viðmiða og varla það.

Aukin umsvif í hagkerfinu eru meðal annars talin með meiri kortaveltu. Þrátt fyrir tvöföldun á fjölda heimila sem eiga í vandkvæðum með að ná endum saman. Þá eru mælingar Seðlabankans á kortaveltunni bættar, skráning á húsaleigu hjá HMS uppfærð og útreikningi á húsnæðislið vísitölu neysluverðs hjá Hagstofunni einnig breytt. Þar eru hagvaxtartölur líka reglulega leiðréttar aftur í tímann. Á vissan hátt má líkja hagtölum hérlendis við vigtun afla um borð í fiskiskipum, áður en Marel fann upp stafrænu skipavogina sem fjallað er um í sögulegri grein hér á undan.

Í ljósi yfirlýsinga vikunnar virðist markmiðið að lækka verðbólgu með því að kæla hagvöxt hér alveg niður, kanski er stefnt í það sem sænskir frændur okkar glíma við, áður en lækka má vextina. Forsíðugrein vikunnar kynnir annarskonar og spennandi nýsköpun í hagstjórn. Óskandi væri að hún hlyti verðskuldaða eftirtekt og víðtæka umfjöllun.

Næsta grein