Rannsóknir og gagnaöflun eru grundvöllur þekkingarsköpunar og forsenda framfara. Undanfarinn áratug hefur mikið áunnist hér á landi þegar kemur að þekkingu og rannsóknum á atvinnulífi menningar og skapandi greina. Þannig var mikilvægt skref stigið árið 2021 þegar menningarvísum Hagstofu Íslands var komið á laggirnar en vísarnir, auk stofnunar Rannsóknaseturs skapandi greina árið 2023, hafa leitt af sér meira og betra samtal milli hagaðila og rannsakenda, aukið meðvitund stjórnvalda um mikilvægi greinanna og eflt skilning á því hvað fellur undir regnhlíf menningar og skapandi greina. Enn er þörf á frekari gagnaöflun og rannsóknum á þessu sviði en vegferðin er hafin fyrir alvöru og til mikils að vinna að sú gróska fái tækifæri til að þróast áfram og blómgast.
Menningarvísar verða til
Í desember 2019 birtist í fyrsta skipti á vef Hagstofu Íslands sérstök tölfræði um starfandi í menningu og skapandi greinum. Birtingin var bein afleiðing af átaki á vettvangi stjórnmálanna en þáverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði sett í stjórnarsáttmála sinn að ráðist yrði „í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar” og veitt fjármagni til Hagstofunnar í þeim tilgangi. Í þessum fyrstu tölum Hagstofunnar um starfandi í menningu og skapandi greinum kom fram að um 15.400 manns væri að ræða, tæplega 8% af heildarfjölda starfandi. Hlutfallið var með því hæsta í Evrópu þá og er það enn í dag en samkvæmt mælingum Hagstofu Evrópusambandsins var hlutfallið langhæst á Íslandi á tímabilinu 2020 til 2023.
Í júní 2021 birti Hagstofan svo menningarvísana, en í þeim má nálgast fimm mælikvarða …