Myndin af heiminum verður stöðugt stærri og óljósari. Sýn okkar getur breyst, ný sjónarhorn myndast, til dæmis við lestur og ferðalög en svo getum við líka verið föst í gamalli hugmynd.
Verðlaunakvikmyndin um Oppenheimer sýnir hvers mannshugur getur verið megnugur við efnahagslega, stjórnmálalega og tilvistarlega ógn sem að honum steðjar.
Báðar greinar vikunnar fjalla um efnahag, þróun og vöxt, frá ólíkum sjónarhólum. Ferðamennirnir halda áfram að koma, jafnvel þó að sumar borgir hafi bannað heimagistingu fyrir ferðamenn og vinsælir evrópskir ferðamannastaðir hafi stöðvað komur skemmtiferðaskipa. Japan íhugar jafnvel tvöfalda verðlagningu á veitingastöðum. Á íslenskum sjúkrahúsum er ráðið skrifstofufólk til þess að sinna afgreiðslu skemmtiferðaskipafarþega.
Nýafstaðnar og væntanlegar kosningar geta haft mikil áhrif á þróun heimshagkerfisins. Erfitt er að vita hvert hörmungar hernaðarátaka hrekja fólk eða hverjar afleiðingarnar á stjórnmál og hlutabréfamarkaði verða.
Japanska borgin Kyoto var tekin af listanum um möguleg skotmörk kjarnorkuárásar, vegna þess að þáverandi bandaríski forsetinn hafði farið í brúðkaupsferð þangað. Fyrrverandi forseti og núverandi forsetaframbjóðandi ákvað fyrir fimm árum að kaupa Grænland. Það er aldrei að vita hvort þær hugmyndir komist aftur á dagskrá eða hvort hugur hans hvarfli annað.
Að vera eftirsótt getur falið í sér bæði vegsemd og vanda. Hagnast má hratt á stöðunni en óljóst hver gróðinn er í raun eða hverju hann skilar á endanum. Konungsríkið Bútan í Himalajafjöllunum lækkaði daggjaldið, sem það rukkar hvern ferðalang um, niður í 100 bandaríkjadali. Tekjurnar greiða fyrir verndun náttúrunnar og menningarinnar, sem gestirnir sækja heim. Þar er ferðaþjónustan um 5-6% af landsframleiðslunni, og vextinum er stýrt. Gestafjöldinn tvöfaldaðist á fyrsta ársfjórðungi – upp í 25.000. Á ársgrundvelli er það álíka og tveggja vikna straumur hérlendis, eða á einn dagur í Japan.