Það er kannski ekki frumlegt að vitna í Nóbelskáldið, en ég ætla að gera það samt. Halldór Laxness lagði eftirfarandi orð í munn einnar af sögupersónum sínum: Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.
Þetta er eftirtektarverð setning vegna þess að í fljótu bragði virðist hún svo mótsagnakennd. Eða er ekki skáldskapur einmitt eitthvað sem truflar efnislega afkomu okkar í hörðum heimi? Ættum við ekki frekar að einbeita okkur að því sem er praktískt, það er að segja ef markmiðið er að lifa af?
Ég leyfi mér hér að taka þessa setningu alveg úr samhengi. En smám saman hefur sú túlkun fæðst í huga mínum að með skáldskap sé átt við skáldlega sýn á lífið, öðru nafni fegurð. Sá sem ekki lifir í fegurð lifir ekki af hér á jörðinni. Og að með orðunum „lifa af“ sé átt við að lifa til fulls. Lifa meira en að nafninu til.
Fyrir rúmum tuttugu árum sat ég ásamt góðum vini í þrettán klukkustundir samfleytt og ræddi tilgang lífsins. Í sameiningu komumst við að þeirri niðurstöðu að tilgangur lífsins væri sá að lifa fallega.
Örfáum árum síðar vorum við farin að hlæja góðlátlega að okkur sjálfum; tveimur unglingum á fyrsta ári í heimspeki í Háskóla Íslands sem komust að svo rómatískri niðurstöðu um tilgang lífsins. En núna er ég ekki frá því að innsæi okkar og tilfinning hafi verið á réttri leið. Niðurstaðan stendur bara ekkert sérlega vel ein og sér. Hún þarfnast nánari skilgreiningar. Og núna er …