
Í kjölfar farsóttarinnar hefur verðbólga verið óvenju mikil hér á landi sem annars staðar. Orsökina mátti í uppahafi finna á framboðshlið og síðar einnig á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Á framboðshlið voru framleiðsluhnökrar vegna farsóttarinnar og áhrif styrjaldar í Úkraínu á verð á hrávöru. Á eftirspurnarhlið voru aukin neysluútgjöld heimila eftir að farsóttin var gengin yfir og áhrif aukningar ríkisútgjalda og vaxtalækkana. Þessum aðgerðum var ætlað að verja sem flest störf á meðan farsóttin gengi yfir, sem tókst, en síðbúin afleiðing var að auka eftirspurn einnig eftir að farsóttin var gengin yfir og þar með auka verðbólgu frá eftirspurnarhlið.
Ísland sker sig úr á þessu ári að því leyti að verðbólga hefur minnkað minna en annars staðar. Þrálát verðbólga hér á landi er athyglisverð í ljósi breytinga á verðbólgu í öðrum ríkjum á þessu ári. Í töflunni hér að neðan er sýnd verðbólguþróun í OECD ríkjum á þessu ári
Í október er verðbólga almennt orðin lág í flestum ríkjunum nema í Ungverjalandi, þar sem hún þó hafði lækkað um 15,5% á árinu, Tékklandi, þar sem hún hafði lækkað um 8,2%, Slóvakíu og Slóveníu, og Póllandi, þar sem hún hafði lækkað um 11,8% á árinu. Ungverjaland, Tékkland og Pólland eiga það sameiginlegt að hafa sjálfstæða gjaldmiðla eins og Ísland. Á Norðurlöndum er verðbólga lægst í Danmörku 0,1% og hafði lækkað úr 7,6% í byrjun ársins og næst Íslandi í Svíþjóð þar sem verðbólgan er nú 6,5%.
Orsakir þrálátrar verðbólgu
En af hverju hefur verðbólga á Íslandi verið svona þrálát? Lykilinn að því að finna orsakirnar hennar má finna í eftirfarandi:
- Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið á þessu ári og verða um það bil jafnmargir og árið 2018.
- Erlent vinnuafl hefur streymt til landsins.
- Atvinnuleysi er lítið og spenna á vinnumarkaði þótt hún fari minnkandi.
- Framleiðni hefur vaxið lítið.
- Húsnæðisverð er hátt í hlutfalli við laun.
- Farandverkafólk hefur tekið sér búsetu í iðnaðarhúsnæði.
- Viðskiptajöfnuður við útlönd hefur verið nærri núlli.
- Virkir vextir seðlabanka hafa hækkað mikið.
- Verðbólguvæntingar eru yfir markmiði.
Ef mikil innlend eftirspurn, þ.e.a.s. eftirspurn Íslendinga, drífi áfram hagvöxtinn þá mætti búast við miklum innflutningi og viðskiptahalla. Þessi er ekki raunin, þvert á móti hefur innflutningur dregist saman. Vöxtur einkaneyslu er hóflegur og sömuleiðis vöxtur atvinnuvegafjárfestingar. Þess í stað hefur eftirspurn að mestu aukist vegna þess að ein atvinnugrein, útflutt ferðaþjónusta, hefur vaxið hratt.
Þjónustuútflutningur jókst um 19,5% á milli ára á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það skýrir af hverju viðskiptajöfnuður er nálægt núlli. En vöxtur ferðaþjónustu skýrir einnig mikinn aðflutning vinnuafls. Einungis á þriðja ársfjórðungi fluttu til landsins 2400 erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta samkvæmt nýútgefnum Peningamálum Seðlabankans. Og þegar hagvöxtur er drifinn áfram af aðfluttu vinnuafli sem fyllir lágframleiðnistörf kemur ekki á óvart að framleiðni hefur ekki vaxið. Það er þá hagvöxtur, verg landsframleiðsla sem vex í heildina með fleira fólki, en hagvöxtur á mann er mun minni og framleiðsla á unna vinnustund vex mjög lítið.
En hvernig passa háir virkir vextir Seðlabankans og skortur á trúverðugleika hans inn í þessa mynd? Vaxtahækkanir hafa vissulega slegið á hækkun húsnæðisverðs, bólan sem hafði myndast á þeim markaði er orðin loftlaus, fleiri …








