Við innleiðingu tilskipunar ESB um sjálfbærnireikningsskil hér á landi er brýnt að skýra orðalag og hugtök í þeim lögum sem gilda um reikningsskil fyrirtækja og annarra skipulagsheilda sem hafa áhrif á almannahag. Mikilvægt er að vanda til þýðingar og lagatúlkunar við slíka innleiðingu, þar sem ónákvæm þýðing getur leitt til mistúlkunar og rangrar beitingar laga.
Keneva Kunz, þá lektor í þýðingafræðum við Háskóla Íslands, hefur bent á að þýðing tilskipana frá ensku yfir á íslensku geti verið verulega vandasöm í samhengi við innleiðingu Evrópulöggjafar. Tilskipanir eru ekki lög í sjálfu sér, heldur grunntextar sem ríki þurfa að innleiða í landslög. Því getur ónákvæm þýðing leitt til merkingarvillu, mistúlkunar eða annmarka í lagasetningu, sem aftur getur haft áhrif á rétta framkvæmd tilskipananna.1
Mikilvægt er að huga að því að lög, reglur og opinber viðmið hér á landi á sviði reikningsskila, stjórnarhátta, sjálfbærni og fjármála byggi á nákvæmri, skýrri og samræmdri notkun hugtaka (íðorða). Þetta á við um ákvæði í lögum um ársreikninga, lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa en einnig lögum um opinber fjármál. Sérstaklega á þetta nú við, í ljósi þess að á alþjóðavísu hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að samræmingu hugtaka í þeim viðmiðum sem liggja að baki nýjum kröfum um samþættingu stjórnarhátta og reikningsskila.2
Greina þarf þar skýrt á milli fjárhagslegs ársreiknings annars vegar og skýrslu stjórnar hins vegar, þar sem veita skal stjórnendaupplýsingar sem skulu vera hluti árlegra reikningsskila – bæði hjá skráðum félögum og ríkisaðilum. Slík aðgreining er nauðsynleg til að tryggja skýra …