Þegar þetta er skrifað, eru fáir sólarhringar síðan ríkisstjórn Frakklands féll á vantrauststillögu vinstri blokkarinnar, skipaðri sósíalistum, græningjum, gamla kommúnistaflokknum og vinstri flokki Jean-Luc Mélenchon, La France Insoumise. Í fyrsta sinn í sögu fimmta lýðveldisins, sem stofnað var af Charles De Gaulle árið 1958, greiddi flokkurinn sem lengst er til hægri í frönskum stjórnmálum atkvæði með vinstri blokkinni og þar með voru dagar ríkisstjórnarinnar taldir.
Þetta hefur gerst einu sinni áður, 1962, en þá féll ríkisstjórn Georges Pompidou, forsætisráðherra Charles De Gaulle. Þá orti Pétur Jónsson í Reynihlíð eftirfarandi stöku:
Franska stjórnin féll í nótt
úr fúnum valda tréstól.
Ætli verði ekki hljótt
eftirleiðis um De Gól?
En De Gaulle leysti upp þingið, efndi til kosninga, fékk traustan meirihluta og stýrði landinu til 1969. Þetta getur Emmanuel Macron ekki gert.
Atburðurinn 4. desember á sér nokkurn aðdraganda. Fyrst má nefna að Macron tókst ekki að tryggja sér meirihluta í þingkosningunum sem haldnar voru í kjölfar þess að hann var endurkjörinn til fimm ára 2022. Minnihluti kosningabandalags hans var þó það stór að hann gat komið stefnumálum sínum í gegn, meðal annars hækkun eftirlaunaaldurs, sem var barið í gegnum þingið með sérstöku ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar forsætisráðherra að setja lög án samþykkis þingsins sem á móti getur kosið um vantraust. Þá sameinaðist stjórnarandstaðan ekki um vantraust og lögin héldu.
Macron mátti búast við erfiðleikum með að koma fjárlögum í gegnum þingið nú í haust. Í júní vann Þjóðfylking Marine Le Pen stórsigur í Evrópukosningunum, og var það áfall fyrir þann …