
Við blasir að umpólun er að eiga sér stað í öryggismálum heimsins og að áhrifa þessa mun gæta hér á landi sem annars staðar. Þungamiðja heimsviðskipta og öryggismála heldur áfram að flytjast til A-Asíu á sama tíma og rísandi Kína getur nú keppt við Bandaríkin á efnahagslegum og, í vaxandi mæli, hernaðarlegum grundvelli. Samfara þessari landfræðipólitísku (e. geopolitical) breytingu, reka Rússar landvinningastríð í Evrópu og í kjölfar valdaskipta í Bandaríkjunum er sjálft Atlantshafssamstarfið í hættu. Þannig byggir utanríkisstefna nýs Bandaríkjaforseta á 19. aldar valdapólitík þar sem stórveldi fara sínu fram í krafti efnahags- og hernaðarmáttar óháð alþjóðalögum og án tillits til sameiginlegra hagsmuna hefðbundinna bandamanna.
Þessi fyrirsjáanlega stefnubreyting birtist kröftuglega í stefnu Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu. Bandaríkjaforseti hefur gefið Rússum eftir sín helstu samningsmarkmið án þess að krefjast nokkurs og beitir Úkraínu þrýstingi til þess að semja án þess að bjóða öryggistryggingar sem nauðsynlegar eru til þess að samningar haldi. Samfara þessu hafa bandarísk stjórnvöld dregið varnarskuldbindingu sína í Evrópu í efa og tekið afstöðu með hægriöfgaflokkum í álfunni. Líkur á átökum Evrópuríkja við Rússa fara því mjög vaxandi og Evrópuríki þurfa að stórefla eigin varnir auk þess að styðja Úkraínu í varnarbaráttu sinni. Í raun hafa Rússar um margra ára skeið rekið óhefðbundinn hernað gegn Evrópu sem felst í skemmdarverkum, mannvígum og kosningaíhlutun.
Þetta eru váleg tíðindi, ekki síst fyrir Eystrasaltsríkin, en varnir þeirra byggja að langmestu leyti á fælingu sem felst í skuldbindingu Bandaríkjanna til þess að verja NATO ríki, bæði með hefðbundnum vopnum og kjarnavopnum. Þessi þróun er einnig sérstaklega alvarleg fyrir Ísland, enda hornsteinar varna landsins Varnarsamningurinn og aðildin að Atlantshafsbandalaginu. Án efa munu Bandaríkin ekki þola að strategískur keppinautur nái yfirráðum yfir Íslandi. En líklegt er að ef ógn stafar að Íslandi muni aðgerðir fyrst og fremst miða að því að koma í veg fyrir slík yfirráð og að tryggja Bandaríkjaher áframhaldandi umsvif hérlendis, en að þar sé almannaöryggi okkar og varnir borgaralegra innviða ekki á forgangslista.
Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að mótuð verði öryggis- og varnarmálastefna að undangenginni skýrslugerð innan stjórnarráðsins um íslensk varnar- og öryggismál. Eðlilegt væri að nýtt áhættumat fyrir Ísland yrði unnið samfara þeirri vinnu, enda var síðast unnið íslenskt áhættumat árið 2009. Hér ber að geta þess að Ísland rekur ekki leyniþjónustu og hefur þar með takmarkaða getu til þess að greina ógnir og skiptast á upplýsingum við slíkar stofnanir bandalagsríkja okkar. Það þýðir að geta okkar til hættumats á hverjum tíma er mjög takmörkuð og því er áríðandi að skoða með hvaða hætti mætti koma upp slíkri getu innan stjórnsýslunnar.
Eins og fram kemur í samantekt síðustu ríkisstjórnar um varnarmál, hefur mikið verk verið unnið innan stjórnsýslunnar til þess að efla samráð ráðuneyta og stofnana í málaflokknum og framlög hafa verið aukin. Einnig hefur samstarf í málaflokknum við Norðurlöndin og NB8 ríkin farið mjög vaxandi, sem og samráð okkar við Norðurhópinn (Northern Group), auk þátttöku okkar í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF).
Samt sem áður eru framlög okkar til eigin varna vart mælanleg í samanburði við önnur NATO-ríki. Líklegt er að bandalagsríki sem hafa skuldbundið sig til þess að verja hvort annað líti það ekki jákvæðum augum að á sama tíma og þau þurfa að rifa seglin í mikilvægum málaflokkum samhliða aukningu útgjalda til varnarmála, verji Ísland innan …








