
Þórólfur Matthíasson birtir grein í Vísbendingu (32. tbl. sl.) þar sem hann gerir athugasemdir við skýrslu Hagrannsókna sf. Veiðigjald, landsframleiðsla og tekjur hins opinbera (hér eftir kölluð skýrslan). Grein Þórólfs einkennist nokkuð af misskilningi á því sem sagt er í skýrslunni og stóryrðum um það sem hann telur rangfærslur og ósannindi. Þó eru þar einnig að finna efnisatriði sem okkur finnst rétt að svara. Gerum við það lið fyrir lið hér að neðan í þeirri röð sem Þórólfur setur þau fram. Persónulegar dylgjur Þórólfs og skattyrði í okkar garð teljum við ekki vitrænni umræðu til framdráttar og leiðum því hjá okkur.
Er skortur á röksemdum/útskýringum í skýrslunni?
Þórólfur heggur eftir að við nefnum í inngangi að kafla 2 í skýrslunni að umfjöllun okkar byggi á þekktum hagfræðilegum niðurstöðum sem of langt mál sé að rekja ýtarlega. Með þessu telur hann að við séum að biðja lesendur um að treysta okkur í blindni. Þetta er fjarri lagi. Í tilvitnun sinni kýs Þórólfur að sleppa næstu setningunni í skýrslunni sem segir: „Þó er leitast við að rökstyðja atriði sem ef til vill eru ekki augljós.” Með þessum tveimur setningum erum við einfaldlega að vekja athygli á því að skýrslan eyði ekki tíma lesandans í að útskýra vel þekkt og augljós atriði en leitist við að rökstyðja annað. Að auki er í sama kafla (kafla 2) og síðari köflum skýrslunnar og viðaukum allar helstu niðurstöður skýrslunnar vandalega rökstuddar og útskýrðar.
Meint rangfærsla okkar um hagkvæmni markaðarins
Þórólfur segir að í skýrslunni sé fullyrt „að framleiðsluþættirnir leiti þangað sem arðsemin er mest sem aftur leiði til skilvirkrar nýtingar framleiðsluþáttanna”. Þetta er ekki heldur rétt haft eftir hjá Þórólfi. Í skýrslunni segir orðrétt: „Í markaðshagkerfum leita framleiðsluþættirnir ætíð til þeirrar starfsemi þar sem endurgjaldið er mest. Er það að öðru jöfnu [áhersla okkar] í samræmi við þjóðarhag.” Við erum nefnilega alls ekki þeirrar skoðunar að leiðsögn markaðskerfisins sé alltaf í samræmi við þjóðarhag. Ein af ástæðunum er tilvera ytri áhrifa (e. external effects). Í fiskveiðum eru þessi ytri áhrif iðulega mjög skaðvænleg. Aflamarkskerfið er einmitt hannað til að leiðrétta fyrir áhrifum þeirra og leiða atferli fyrirtækjanna að þjóðarhag.
Er fræðilegur grundvöllur fyrir hugtakinu auðlindarenta?
Þórólfur dregur í efa þá niðurstöðu okkar að ekki sé fræðilegur grundvöllur fyrir tilveru sérstakrar auðlindarentu og kallar hana „furðulega”. Samt hefur annar okkar rökstutt þessa niðurstöðu í alþjóðlegum ritrýndum útgáfum sem vísað er til í skýrslunni, en Þórólfur virðist telja marklausar. Í sjálfu sér skiptir engu fræðilegu máli hvað fyrirbæri eru kölluð. Flestir skilja hins vegar hugtakið auðlindarentu svo að það sé auðlindin (yfirleitt náttúruauðlind) sem skapi rentuna (eða hagnaðinn). Það er hins vegar alls ekki svo, hvorki í fiskveiðum né öðrum atvinnuvegum. Hagnaður í þessum greinum verður til fyrir tilverknað fjölmargra aðfanga, bæði aðfanga sem birtast í rekstrarreikningi (eins og t.d. vinnuafls og eldsneytis) og annarra aðfanga eins og tækninnar, skipulags fyrirtækisins, hugvits og framtaks eigenda o.s.frv. auk náttúruauðlinda. Öll þessi aðföng hafa áhrif á hagnaðinn og mörg þeirra eru nauðsynleg fyrir reksturinn. Það er því fráleitt að freista þess að rekja hagnaðinn (eða rentuna) til einhvers eins af þessum mörgu aðföngum. Það er álíka vitlaust og vinnugildiskenning Karls Marx og klassísku hagfræðinganna sem freistuðu þess að rekja öll verðmæti til vinnu. Til að sjá hversu fráleit þessi kenning um að hagnaður í fiskveiðum stafi af auðlindinni einni nægir í rauninni að velta því fyrir sér hvers vegna þessi hagnaður hafi ekki verið miklu meiri á 19. öldinni eða árunum milli 1950 og 1970 þegar fiskistofnar voru miklu stærri en nú er. Það er í þessum skilningi sem hugtakið auðlindarenta á sér enga stoð í hagfræði eða fræðilegri greiningu yfirleitt og er í rauninni aðeins pólitísk klisja. Það er alveg eins hægt að tala um tæknirentu, vinnuaflsrentu, veiðafærarentu, markaðsrentu, framtaksrentu o.s.frv.
Hvað sagði Adam Smith í raun og veru?
Þórólfur fullyrðir að Adam Smith hafi talið auðlindaarð afar heppilegan skattstofn og birtir því til stuðnings eftirfarandi texta sem hann segir tekinn úr Auðlegð þjóðanna: „Bæði auðlindaarður og leigugjald af landi eru tekjur þess eðlis að þær renna til eiganda landnæðisins án þess að hann þurfi fyrir því að hafa. …“ Texti þessi virðist þýðing Þórólfs á klausu í bók V í Auðlegð þjóðanna (sjá Adam Smith, 1976) sem á frummálinu er: „Both ground-rents and the ordinary rent of land are a species of revenue which the owner, in many cases, enjoys without any care or attention of his own.” Enski textinn er því ekki eins og sú þýðing sem Þórólfur birtir. Í fyrsta lagi er Adam Smith er alls ekki að skrifa um auðlindarentu (í skilningi Þórólfs). Hann er aðeins að fjalla um tilteknar leigutekjur, þ.e. lóðaleigu (ground-rent) og „venjulega“ landleigu (sem oft er kölluð landrenta). Þannig talar hann ekki um rentu í fiskveiðum eða námugreftri þótt þar hefðu verið hæg heimatökin ef hann hefði verið á sömu skoðun og Þórólfur því báðir þeir atvinnuvegir voru veigamiklir í bresku efnahagslífi á hans tíma. Í öðru lagi …









