Árið 2024 var viðburðaríkt í japönskum stjórnmálum og einkenndist af ófyrirsjáanlegri og snarpri atburðarás. Umfangsmikið spillingarmál sem komst upp síðla árs 2023 hélt áfram að skekja stærsta stjórnmálaflokkinn, Frjálslynda lýðræðisflokkinn (LDP), og undirliggjandi óánægja almennings veikti stöðu hans enn frekar. Ný ríkisstjórn tók við eftir skyndikosningar í október síðastliðnum – kosningar sem komu hrapallega út fyrir stjórnarflokkana sem hafa stjórnað landinu nánast sleitulaust síðan um aldamót. Japanskir kjósendur hafa lengi greitt atkvæði með stöðugleika að leiðarljósi en í síðustu kosningum kvað við nýjan tón. Hverju vilja kjósendur helst breyta og er frekara uppgjör í vændum?
Spillingarmál og innanflokksátök
Fumio Kishida sagði af sér sem forsætisráðherra og formaður LDP í september sl. eftir að fylgi við ríkisstjórn hans hafði ítrekað mælst undir 20 prósentustigum í skoðanakönnunum og meira en helmingur þjóðarinnar vildi að hann segði af sér. Flokkurinn var staðinn að því að hafa safnað í kosningasjóði með ólöglegum hætti, verðbólga (sem Japanir eiga ekki að venjast) mældist óvenjulega há vegna hækkana á m.a. orku- og matarverði , og gagnrýnin beindist að Kishida. Við tók spennandi formannsslagur innan LDP þar sem níu af helstu framámönnum flokksins tókust á, þ.á m. þrjár konur. Tveir af frambjóðendunum voru áhugaverðir fyrir Ísland og Norðurlönd þar sem þeir hafa sýnt okkar heimshluta áhuga. Taro Kono, fv. utanríkisráðherra, hefur heimsótt bæði Grænland og Ísland, en slíkur áhugi á norðlægum slóðum er óvenjulegur meðal japanskra ráðamanna. Yoko Kamikawa, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Kishida, hefur aftur á móti lagt til sérstakt átak í samskiptum við Norðurlönd, sem einnig á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður.
Það kom flestum á óvart þegar Shigeru Ishiba bar sigur úr býtum í formannskjörinu innan LDP. Hann hafði fimm sinnum áður boðið sig fram, en þurft að lúta í lægri haldi, og hefur oft verið lýst sem utangarðsmanni eða einfara í flokknum. Það er erfitt að staðsetja skoðanir Ishiba sem sumar samræmast íhaldssamari væng flokksins og aðrar við þann framsæknari. Á heildina litið þykir Ishiba nálægt miðjunni og hann hefur oft gagnrýnt flokksforystuna. Þessi fjarlægð frá helstu áhrifamönnum flokksins, og þar með spillingunni, kom sér vel fyrir Ishiba sem tók við embætti forsætisráðherra 1. október sl. eftir að hafa borið sigur úr býtum í formannskjörinu. Það kom síðan aftur á óvart þegar Ishiba efndi til skyndikosninga í neðri deild þingsins síðar í mánuðinum með það að markmiði að ná sterku umboði kjósenda eftir að hafa tekið til í flokknum (yfirborðslega sýndist sumum) og endurnýjað forystuna. Áætlunin mistókst hrapallega og stjórnarflokkarnir tveir, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og Komeito (stofnaður af meðlimum í búddatrúarsöfnuðinum Soka Gakkai), misstu samtals yfir 70 þingsæti í kosningunum. Eftir kosningarnar eru stjórnarflokkarnir með samtals 215 sæti í neðri deild þingsins, en 233 sæti þarf til að ná meirihluta. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Stjórnaskrár-lýðræðisflokkurinn (CDPJ), bætti aftur á móti við sig 50 sætum.
Núverandi staða
Staðan er nú þannig að stjórnarflokkarnir tveir eru áfram í ríkisstjórn, en í minnihlutastjórn. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn (CDPJ) kom sterkur til leiks úr kosningunum með fleiri sæti, meiri meðbyr og mikið …








