
Þessi árin vex Indland hraðar en önnur af stærstu hagkerfum heimsins.
Hagvöxturinn er ekki nýr, meðaltal síðustu 20 ára er nær 7% árlega. Möguleikar á framhaldi þess konar vaxtar eru góðir en líkur á meiri vexti hæpnar. Indverjar eru að verða hálfdrættingar á við Kínverja í landsframleiðslu á kaupmáttarkvarða. Á sama kvarða er Indland orðið tvisvar til þrisvar sinnum auðugra en Rússland, Japan og Þýskaland. Mun Indland vafalítið fara fram úr Japan og Þýskalandi í vergri landsframleiðslu á næstu misserum og verða þriðja stærsta hagkerfi heimsins á alla mælikvarða.
Fyrirferðin mun enn um sinn byggjast meira á fjölmenni en framleiðni. Landið er heimkynni sjötta hvers manns á jörðinni og rúmlega það, mannfleira en öll Afríka með sín 55 ríki og miklu fjölmennara en álfur Ameríku pólanna á milli. Mannaflinn er tvöfaldur á við Evrópu að Rússlandi meðtöldu. Fimmta hvert ungmenni í heiminum sem nú leitar út á vinnumarkað er Indverji.
Áhrifin á heiminn
Uppgangur Kína breytti ekki aðeins lífi þess sjötta hluta mannkyns sem þar býr heldur breytti hann heiminum öllum í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Enga nothæfa skoðun á efnahagslífi og pólitík heimsins er núorðið hægt að búa til án einhverrar þekkingar á Kína.
Því er eðlilega spurt hvort eitthvað líkt sé í vændum með Indland. Stutta svarið er að afleiðingarnar fyrir heiminn af uppgangi Indlands verða víðtækar en um sumt ólíkar því sem gerðist með Kína.
Ekki næsta verksmiðja heimsins
Indland mun ekki taka við af Kína sem verksmiðja heimsins. Hutur þess í iðnframleiðslu jarðar er aðeins ríflega tíundi hluti af framleiðslu Kína og vex lítið. Þó hefur áhersla á iðnvæðingu verið ein helst samfellan í stefnu ólíkustu ríkisstjórna á Indandi í áratugi.
Önnur ríki Asíu, sérstaklega lönd Suðaustur-Asíu, eru í betri stöðu en Indland til að koma sér fyrir í alþjóðlegum framleiðslukeðjum. Grunnurinn er þar sterkari, aðföng auðveldari, menntun hagnýtari og innviðir betri. Indverskur iðnaður ber þess enn merki að hann var fyrst hugsaður fyrir heimamarkað. Hann hefur sótt í pólitíska vernd frekar en aga alþjóðlegra markaða.
Stutt er síðan þorri einkarekins atvinnulífs var utan hins stafræna heims, illa fjármagnað, illa tengt tækifærum og rekið fyrir reiðufé. Þetta er ört að breytast. Meirihluti viðskipta ratar nú í gegnum stafræn kerfi. Það breytir miklu fyrir hagstjórnina og opnar fyrirtækjum aðgang að bönkum.
Þótt Indland keppi seint við Kína í skilvirkni verður það þýðingarmikið iðnríki á næstu árum. Grunnur er að verða til fyrir fjölbreytta framleiðslu hátæknifyrirtækja í stórborgum suðurhluta landsins. Nokkur af stærstu iðnfyrirtækjum heimsins stunda þar nú bæði þróunarstarf og framleiðslu. Þúsundir innlendra fyrirtækja hafa sprottið upp í þessum borgum og Indland er orðið leiðandi í greinum eins og lyfjaframleiðslu og þróun hugbúnaðar.
Fylkin eru gerólík í öllu tilliti. Munurinn er miklu meiri en á milli héraða í Kína þótt hann sé þar ærin. Vald fylkja og borga til að setja viðskiptum skorður hefur verið meira en afl þeirra til að hlú að innviðum. Þau eru pólitískt sterk en illa fjármögnuð
Niðurlæging og blindgötur
Sagan skýrir margt. Í tvö þúsund ár, fram yfir 1850, mynduðu Indland og Kína langstærstu hagkerfi heimsins, Indland oftast stærra en sjaldnast eitt ríki. Yfirburðirnir skýrðust af miklum fólksfjölda en þó ekki alveg því þetta voru líka þróuðustu hagkerfi heimsins. Bretar fóru í tvö stríð við Kína til að vernda fríverslun með ópíum. Það var það eina sem þeir gátu selt Kínverjum. Indverjar stóðu undir 25% af iðnframleiðslu heimsins við upphaf breska nýlendutímans á 18. öld en áttu aðeins 2% í henni um aldamótin 1900.
Í báðum löndunum er þessi mynd vel þekkt. Þar lýsir hún síðustu tvö hundruð árum sem fráviki frá náttúrulegri skikkan heimsins og tíma stórkostlegrar niðurlægingar sem nú er að taka enda. Löndin tvö eru samanlagt hlutfallslega nær eins stór hluti heimsins og Reykjavík er af Íslandi.
Vendipunktur kom um miðja síðustu öld. Indland fékk sjálfstæði og kínverska alþýðulýðveldið varð til. Bæði ríkin gerðu fortakslausa kröfu um efnhagslegt sjálfstæði ekki síður en pólitískt. Sú hugsjón hafði dapurlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf beggja og fóstraði um leið vonda pólitík, sem reyndist skelfilegri í Kína en lamaði líka Indland og hélt þjóðinni í örbirgð. Tugir milljóna barna dóu þar úr fátækt á nokkrum áratugum.
Pólitíkin var skiljanleg eftir skelfingar nýlendutímans. Þetta var hins vegar uppskrift að mikilli þrautargöngu. Innflutningur var sagður vondur, erlendar fjárfestingar hættulegar og efnahagslegt sjálfstæði ofar öllu. Indverjar komust að þessari niðurstöðu með lýðræðislegum hætti. Þeir reyndust enn þrautseigari en Kínverjar í trú sinni. Hindranir einkenna enn öll viðskipti við útlönd.
Vöxtur og veruleiki
Fyrir tuttugu árum blöstu við þeim sem eitthvað ferðaðist um Kína slíkar andstæður að auðvelt var að skipta daglega um skoðun á framtíð …








