Í síðustu viku hringdi Trump í Pútín til að tala um Úkraínu, og afleiðingarnar í alþjóðlegum fjölmiðlum urðu mjög viðburðarík helgi fyrir umfjöllun um varnarmál í Evrópu. Líkt og helgina eftir að Trump hringdi í Mette Frederiksen til að tala um Grænland fyrir fáum vikum.
Kosningar í Þýskalandi um næstu helgi geta orðið afdrifaríkar fyrir framhaldið og fjöllum við um þær hér. Emmanuel Macron forseti Frakklands var í viðtali í Financial Times á föstudaginn þar sem kom fram afgerandi ásetningur hans um að fá leiðtoga álfunnar til að axla ábyrgð – standa saman, sjálfstæð og óháð – gagnvart hinu trumpíska stjórnarástandi Bandaríkjanna. Fleiri evrópskir leiðtogar hafa tekið undir það kall eftir nýjum öryggisstrúktúr í Evrópu.
Á öryggisráðstefnunni í München um síðustu helgi, þar sem margir ráðherrar hittust, vitnaði Alexander Stubb forseti Finnlands í sjálfan Lenín: Það eru áratugir þar sem ekkert gerist og svo eru vissar vikur þar sem atburðir á við áratugs þróun geta átt sér stað.
Síðustu og komandi vikur gætu falið í sér meiri breytingar á bandarísku og þar með alþjóðlegu efnahagsumhverfi heldur en við höfum orðið vitni að í marga áratugi. Raunar gæti það talist líklegt miðað við ástandið. Eitt merki um það er tímabundin aflétting Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fjármálareglunum þess. Þó engir áratugir séu síðan það var gert fyrst, í heimsfaraldrinum, þá er það nú gert vegna útgjalda til varnarmála og þess háttar breyting á opinberum fjármálum er merki um ógnarástand. Opinber fjármál eru til umræðu í forsíðugrein vikunnar, út frá sjónarhóli nágranna okkar í Færeyjum.
Á tímum sem þessum eru traustir og gagnrýnir fjölmiðlar lykilatriði. Í þessum leiðaraskrifum annarra sálma eru iðulega tenglar (á bak við undirstrikuðu orðin) í Financial Times og fleiri þannig miðla. Grein í helgarblaði FT um hver muni verja Evrópu birtir nýja heimsmynd.