Í fyrri grein sem birtist í fyrsta tölublaði ársins var rakið hvernig hitafar hefur breyst á Íslandi frá upphafi 20. aldar og kynntar niðurstöður loftslagslíkana um líklega hlýnun gangi einhver losunarsviðsmynda CMIP6 reikniverkefnisins eftir.
Í greininni kom fram að hlýnun á öldinni ræðst að miklu leyti af því hversu mikið verður losað af gróðurhúsalofttegundum. Í lok þessarar aldar verður líklega heitara á Íslandi en verið hefur frá landnámi og gangi ítrustu losunarsviðsmyndir eftir verður veðurfar hér hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum.
Í þessari grein verður farið yfir áhrif slíkrar hlýnunar á breytingar í úrkomu, afrennsli, afkomu jökla og sjávarstöðubreytinga. Áhrif á lífríki á landi, í sjó og vötnum verða einnig rædd, en umræða um samfélagsleg áhrif með áherslu á áhrif á atvinnuvegi, innviði og efnahag verður í þriðju greininni.
Úrkoma og hlýnun
Úrkomumælingar sýna að úrkoma hefur aukist frá því á síðustu öld. Meðalúrkoma hvers árs á landinu var þá um 1500 mm en lægri á láglendi eða um 1000 mm. Á þessari öld er úrkoman meiri, eða um 1600 – 1700 mm (1100 – 1200 mm á láglendi) sem er aukning um 10 – 15%. Sveiflur milli ára eru hinsvegar verulegar. Á síðustu árum hafa verið umtalsverðar breytingar á úrkomutegund og ákefð úrkomu. Þannig hefur hlutfall snævar í úrkomu lækkað, sérstaklega á vatnasvæðum sem standa lægra í landi. Efst á hálendinu, þar sem er kaldast gætir þessa síður.
Líklegt er að úrkomuaukning haldi áfram, en loftslagslíkön sýna þó ekki eindregna aukingu. Að meðaltali sýna líkön að úrkoma aukist um 1% fyrir hverja gráðu sem hlýnar sem er lítið í samanburði við þær breytingar sem þegar hafa átt sér stað. Líkön sýna hinsvegar að líkur á aftakaúrkomu aukast. Sú sólarhringsúrkoma sem nú hefur 1% árslíkur að henda, sk. 100 ára úrkoma, reynist í sviðsmyndareikningum mun algengari í lok aldarinnar. Sem dæmi má nefna að í þeirri sviðsmynd þar sem minnst er losað af gróðurhúsalofttegundum (SSP1-2.6, sjá fyrri grein) verður þetta úrkomumagn ríflega tvöfalt algengar og endurkomutíminn að jafnaði 43 ár, og í þeirri sviðsmynd þar sem mest var losað (SSP5-8.5, sjá fyrri grein) verður þetta úrkomumagn tæplega áttfalt algengara og endurkomutíminn um 13 ár að jafnaði. Á síðustu árum hafa átt sér stað nokkur tilvik þar sem umtalsverð úrkoma stóð í nokkra daga og flóð og jafnvel skriðuföll hlutust af. Sem dæmi má nefna atburðinn á Seyðisfirði í desember 2020. Óvenjuhlýtt var þessa daga miðað við þennan árstíma og því féll þessi úrkoma sem rigning. Afleiðingarnar voru mestu skriðuföll í sögu Seyðisfjarðarbyggðar.
Jöklar og rýrnun þeirra
Í fyrri skýrslum vísindanefndar kom fram að íslenskir jöklar rýrna nú verulega. Í þessari samantektar skýrslu kemur fram að rýrnunin hefur haldið áfram þó heldur hafi hægt á henni á síðustu árum frá því sem hún var á tímabilinu 1995 til 2010. Jöklar náðu hámarksútbreiðslu í lok 19. aldar og síðan þá hafa þeir dregist saman um 2300 km2 sem er um 19% af flatarmáli þeirra. Heildarmassatapið á tímabilinu 1890–2019 var 540 ± 130 Gígatonn, eða sem svarar 16 ± 4% af heildarmassa árið 1890. Nokkrir smærri jöklar hafa horfið alveg og vegna hörfunar jökla eru jaðarlón fyrir framan þá að stækka og ný að myndast. Vetrarafkoma jöklanna hefur verið of lítil og sumarleysing of mikil til að jafnvægi í stærð þeirra haldist, og ólíklegt er að viðsnúningur verði á rýrnun þeirra á næstu árum.
Mynd 1 sýnir afkomu stóru jöklanna þriggja. Bláu súlurnar sýna uppsöfnun snævar að vetri, en rauða súlan bráðnun að sumri. Svarta línan sýnir ársafkomuna. Á síðustu áratugum hefur ársafkoman verið neikvæð langflest árin og í heildina hefur Vatnajökull tapað ís sem samsvarar um 26 metra þykku lagi á því tímabili sem myndin sýnir. Hofsjökull hefur tapað 31 m þykku lagi og Langjökull um 39 m. Ólíklegt er talið að viðsnúningur verði á afkomu jöklanna á næstu áratugum.
Massatap jökla léttir fargi af jarðskorpunni og útbreitt landris sem mælingar sýna við miðbik landsins og suðausturströnd þess er að mestu rakið til massataps jökla. Þessi áhrif ná ekki til suðvesturhluta landsins þar sem landsigs gætir. Annars staðar við ströndina gætir landriss eða landsigs í minna mæli.
Hækkun yfirborðs sjávar
Hnattræn hækkun sjávarstöðu á tímabilinu 2006 – 2018 er talin um 3,7 mm á ári og talið er að varmaþensla vegna hlýnunar sjávar sé ábyrg fyrir um 39% af þeirri tölu, rýrnun stóru ísbreiðanna á Grænlandi og Suðurskautslandinu um 27% og rýrnun minni jökla um 17%. Megnið af afganginum er talið að megi rekja til breytinga á vatnsforða á landi. Líklegt er talið að hnattræn sjávarstaða geti hækkað um hálfan til einn metra fram til aldamóta, en það fer eftir hlýnun hafsins og hversu mikið massatap Grænlands og Suðurskautslandsins …









