
Þann 29. ágúst sl. kom út skýrsla starfshóps um gjaldtöku og arðsemi bankanna. Hlutverk starfshópsins var að kanna og greina arðsemi og gjaldtöku stóru viðskiptabankanna þriggja hérlendis og bera saman við aðra norræna banka ásamt því að kanna stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á bankamarkaði. Tímabilið sem efnistök skýrslunnar afmarkast við eru árin 2018-2023 en í vissum tilfellum var ákveðið að skoða lengra tímabil.
Rekstur bankanna hefur vænkast og afkoma batnað til muna
Skýrslan sýnir að mikil hagræðing hjá viðskiptabönkunum þremur síðustu ár, sem m.a. felst í aukinni sjálfvirknivæðingu og fækkun útibúa og starfsfólks, hefur skilað sér í verulegri lækkun á rekstrarkostnaði. Þannig fór kostnaður sem hlutfall af tekjum úr því að vera 59% árið 2018 í 47% árið 2022. Kostnaðarhlutföll íslensku bankanna eru nú með þeim lægstu meðal norrænna banka af svipaðri stærðargráðu og svipuð og hjá stóru norrænu bönkunum. Kostnaður sem hlutfall af heildareignum hefur einnig lækkað verulega. Þá fór samanlögð arðsemi eigin fjár bankanna úr 6,1% árið 2018 í 10,1% árið 2022 og hefur arðsemi af undirliggjandi rekstri ekki verið meiri frá stofnun bankanna. Meðalarðsemi eigin fjár hefur einnig aukist verulega síðustu ár og er hún ívið meiri en meðalarðsemi hjá bönkum af sömu stærðargráðu á hinum Norðurlöndunum og næst hæst af öllum Norðurlöndunum. Þá skiluðu viðskiptabankarnir þrír að meðaltali hærri arðsemi eigin fjár í fyrra en stórir norrænir bankar sem og stórir alþjóðlegir bankar. Hagnaður íslensku bankanna jókst einnig mikið á tímabilinu og fór úr 38 milljörðum árið 2018 í 81 milljarð árið 2021 og í 67 milljarða árið 20221.
Hagræðing og skattalækkanir hafa ekki skilað sér til neytenda
Á sama tíma og rekstrarkostnaður hefur lækkað, arðsemi hefur hækkað og hagnaður hefur aukist hefur verð á bankaþjónustu hækkað litlu minna en almennt verðlag. Það kemur ekki á óvart að gjöld fyrir þjónustu í útibúum hafa hækkað hlutfallslega meira en rafræn þjónusta þó það hafi þann ókost í för með sér að neyslukarfa eldri einstaklinga, sem reiða sig að öllum líkindum frekar á þjónustu útibúa, hefur hækkað meira í verði en þeirra sem geta nýtt sér tæknina. Það sem kemur hins vegar á óvart er að verð á bankaþjónustu og greiðslukortum hefur í megindráttum fylgt almennu verðlagi, svipað og lágframleiðniþjónusta á borð við klippingu. Á sama tíma hefur verð á þjónustu tæknifyrirtækja á sviði fjarskiptaþjónustu hækkað mun minna en almennt verðlag og þar með lækkað verulega að raunvirði1. Erfitt er að leggja hlutlægt mat á hvað telst til eðlilegra verðhækkana á bankaþjónustu en það vekur upp spurningar að sjá miklar verðhækkanir á algengum þjónustuliðum sem hafa verið algjörlega sjálfvirknivæddir og/eða fela ekki í sér mikinn tilkostnað fyrir bankana. Ekki verður með góðu móti séð að gjaldheimta bankanna endurspegli alltaf kostnað bankanna við að veita þjónustuna.
Gjaldtaka bankanna felst einnig í háu álagi ofan á gengi þegar kemur að sölu gjaldeyris til viðskiptavina við notkun greiðslukorta og geta útgjöld meðalheimilis vegna gengisálags auðveldlega numið tugum þúsunda á ári. Ætla má að Íslendingar hafi greitt bönkunum 6,6 milljarða í gengisálag árið 2022 fyrir að nota greiðslukort sín í erlendum færslum. Hefðu sömu greiðslur átt sér stað í reiðufé hefði gengisálagið verið 4,9 milljarðar eða 1,6 milljarði minna. Þá er vaxtamunur íslensku bankanna enn mun hærri en á hinum Norðurlöndunum en hann var að meðaltali 2,7% árið 2022 samanborið við 1,6% hjá norrænum bönkum af sambærilegri stærð. Vaxtamunur minnkaði ekki á tímabilinu þrátt fyrir lækkun bankaskatts sem var flýtt og hrint í framkvæmd árið 2021. Þetta bitnar ekki einungis á neytendum sem greiða fyrir vikið mun hærri fjárhæðir í vexti en almenningur í nágrannalöndunum heldur hefur há álagning bankanna á vexti áhrif á rekstur fyrirtækja sem leiðir til hærra vöruverðs, sem lendir að lokum á neytendum. Þá er ótalinn kostnaður við notkun greiðslumiðla hér á landi sem er um helmingi meiri en í Noregi (sem er eina landið sem má telja samanburðarhæft við Ísland) og nam 47 milljörðum hér árið 2021 eða 1,43% af vergri framleiðslu1.
skortur á samkeppni á banka- og fjármálamarkaði leiðir til þess að neytendur fara halloka út úr viðskiptum við banka og miklir fjármunir fara til spillis
Eitruð blanda
Þegar gjaldtaka bankanna er rýnd má draga þá ályktun að þeir sjái sér ekki hag í að aðgreina sig með ólíkri verðlagningu. Í stað þess að bjóða upp á lægra verð á tiltekinni þjónustu en keppinautarnir hækka bankarnir verð í takt og elta næsta banka ef hann ákveður að hækka verð. Það eru ekki nýjar fréttir að verðskrár bankanna séu langar, ítarlegar og flóknar en það var endanlega staðfest með skýrslunni. Það tók margra vikna vinnu fyrir starfsmann stýrihópsins að gera …








