Það er ískyggilega lesningu að finna í forsíðugrein vikunnar um það hvernig mikil eigin ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna í hávaxtalandi verðtryggingarinnar hérlendis geti leitt þá út í að brjóta eigin viðmið um samfélagslega ábyrgð. Þannig láta þeir eigin eignarhaldsfélög lána dótturfélögum í rekstri til þess að skapa fjármagnskostnað af kúluláni og flytja rekstrarhagnað orkuversins yfir í annað félag til að sniðganga skattgreiðslur að því er best verður séð.
Lánveitingin virðist hvorki fara til fjárfestingar í orkuframleiðslu né til varnaraðgerða við náttúruvá, heldur aðeins til að búa til 10,9% fjármagnskostnað. Ríkissjóðurinn okkar sameiginlegi sem verður af rúmlega tveggja milljarða skattekjum vegna þessa kúluláns hefur á sama tíma eytt enn fleiri milljörðum af öðrum skatttekjum í varnargarða fyrir þetta sama einkavædda orkuver sem forðast þannig bæði skattgreiðslur og hraunflæði á Suðurnesjum.
Í vikunni var sautján ára afmæli stóru neyðarlaganna sem sett voru til að tryggja það að gjaldþrot Kaupþings daginn eftir myndi ekki draga ríkissjóð og íslenskan efnahag með sér. Arionbanki var reistur, með stuðningi ríkisins, upp úr innlendum rústum Kaupþings banka. Raunar hafði forveri bankans, löngu áður en hann varð til úr samruna við Búnaðarbankan, verðbréfafyrirtækið Kaupþing einnig komið Vísbendingu á fót, en það er önnur saga.
Samkvæmt áhugaverðri grein eftir bankastjórann núverandi sem birtist á afmælisdegi gjaldþrotsins þá eru hinir öflugu lífeyrissjóðir, sem töpuðu miklu hlutafé með Kaupþingi við þrotið, orðnir stór hluti vandans við sterka víxlverkun í hringekju hárra vaxta og verðtryggingar. Nánar er farið ofaní þann vanda og bólgu húsnæðisverðs í síðari grein blaðs vikunnar með sérstökum áherslum á meintan árangur seðlabanka við að breyta og beita virkri peningastefnu. Lesendum bent á tengla í þeirri grein með alþjóðlegu efni auk úttektar Financial Times. Loks er brýnt að lesa eða horfa á merka ræðu Christine Lagarde forseta evrópska seðlabankans í Finnlandi fyrir tíu dögum um efnhagslegt brimrót stríðsástands.