Forsetakosningar um síðustu helgi leiddu til þeirrar niðurstöðu að viðskiptakona og fjárfestir var valinn næsti forseti Íslands samkvæmt fyrirsögnum erlendra fjölmiðla á sviðum viðskipta- og fjármála. Lesendum Vísbendingar líkt og öðrum landsmönnum hlýtur að líka niðurstaðan.
Í aðdraganda kosninganna lögðu meginmiðlar íslenskrar fjölmiðlaflóru mikið upp úr því að spyrja frambjóðendur hvernig þeir sjálfir hefðu kosið í Icesave kosningunum. Það er því við hæfi að fyrri greinin[1] í blaði vikunnar fjallar meðal annars um þá samninga. Rétt er að ítreka áminningu um að helmings munur var á hámörkum þeirra samninga sem forsetinn þáverandi hafði samþykkt upphaflega og síðan þeirra samninga sem hann sjálfur vísaði til atkvæðagreiðslu um samþykkt hjá þjóðinni.
Minna fór fyrir umræðu um hvort eðlilegt sé að kjósa um hvort greiða eigi skuldir. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um hvort greiða eigi skuldir ÍL-sjóðs eða reyna sleppa við það og áleitin spurning hvort einhver frambjóðenda hefði svarað því játandi að þau lög gæfu tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjármálakrísan virðist nýkjörnum forseta í fersku minni og vísaði hún oft til þjóðfundarins eftir hana í kosningabaráttunni. Því er hægt að bera vissa von í brjósti um að lærdómurinn nú sextán árum síðar nýtist þjóðinni mögulega fyrir tilstuðlan okkar nýja forseta áður en næsta krísa skellur á.
Annað sem kreppur fela oft í sér eru umbreytingar á atvinnuháttum. Í marga áratugi var tveimur fyrirtækjum helst hampað sem íslenskri nýsköpun, fyrirtækjunum Össuri og Mareli sem eru nú um fimmtugt og hugmyndirnar þeim að baki eflaust komnar vel yfir eftirlaunaaldursmörkin úreldu. Seinni grein[2] vikunnar fjallar um hvernig rannsókna- og þróunarstarf hefur aukist hratt hérlendis.
Ferðaþjónustan tók við sem meginatvinnugrein þjóðarinnar eftir að fjármálageirinn féll af þeim stalli, án þess að nokkur hafi viljað rannsaka almennilega hvernig hann komst á þann stall. Ferðamálin verða einmitt þema sumarblaðs Vísbendingar sem koma mun út í næstu viku.