Til baka

Aðrir sálmar

Börn og aldraðir

Blað vikunnar fjallar um börn og öldrun. Umgjörðin sem þessir tveir hópar búa við sýnir nokkuð vel hvernig samfélag okkur hefur tekist að byggja upp.

Í ritgerð sinni um efnahagslega möguleika barnabarna okkar (Economic Possibilities for our Grandchildren) setti hinn merki hagfræðingur John Maynard Keynes fram þá kenningu árið 1933 að náttúruleg efnahagsleg þróun auðugari ríkja fælist í minni vinnu. Raunar reiknaði hann það út að miðað við tækniþróun þá gæti hver vinnuvika styttst í um 14 klukkustundir á hundrað árum.

Árangurinn nú þegar rúm 90 ár eru liðin er þó enn kringum 36-40 stunda vinnuviku. Sem þýðir að á næsta tæpa áratug þurfa gervigreindin og róbótarnir að hjálpa okkur við að stytta vinnuvikuna um 22-26 klukkustundir. Það eru um þrír venjulegir vinnudagar. Framleiðni þarf að aukast verulega til að vinnuvikan styttist svo mikið svo hratt.

Án þess að hafa komist nær markmiðinu um styttri vinnuviku til að hafa meiri tíma með börnum okkar, barnabörnum, foreldrum eða öfum og ömmum þá höfum við þess í stað komið upp kerfum.

Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra var sérstaklega lagt ofan á skattheimtu fyrir áratugum síðan en skortur á rými á hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra er samt óstöðvandi umræðuefni. Það er þó ekki verið að senda fólkið út í geim heldur þarf einvörðungu að byggja yfir það hentugt húsnæði með hæfilegri þjónustu til að efri árin verð áhyggjulaus.

Við getum tekið við skólabörnum við sex ára aldur í skólum. En við getum enn ekki tekið við öllum börnum í leikskóla þegar að fæðingarorlofi foreldra lýkur, ástand líkt og fyrir áratugum síðan. Eins þurfa börnin að bíða í löngum röðum eftir lögbundinni þjónustu sem sem þau eiga rétt á samkvæmt barnasáttmálanum og umboðsmaður bendir á.[1]

Árangurinn frá því Keynes skrifaði ritgerðina um hagfræðina fyrir barnabörnin hefur verið gífurlegur varðandi auknar lífslíkur[2] og nánast útrýmingu á barnadauða. Spurningin sem æpir efnahagslega á okkur er til hvers þeim árangri var náð.

Tilvísanir

  1. https://visbending.is/greinar/bid-barna-eftir-thjonustu-er-dyrkeypt/

  2. https://visbending.is/greinar/aukid-langlifi-kallar-a-umbreytingar/

Næsta grein