
Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum árum og áratugum með sífellt hærra hlutfalli innflytjenda meðal vinnandi fólks. Einnig hefur útvistun starfa aukist og fyrirséðar eru enn meiri breytingar með sjálfvirknivæðingu starfa. Á seinni árum hefur endurskipulagning, niðurskurður, einkavæðing og útvistun orðið algengt stef í rekstri skipulagsheilda (Quinlan og Bohle, 2009). Slíkar breytingar eru oft gerðar í nafni betri nýtingar fjármagns en þær kalla um leið á starfstengt óöryggi launafólks (Bos, Boselie og Trappenburg, 2017). Margt bendir einnig til þess að einkavæðing opinberrar þjónustu dragi úr vellíðan starfsfólks. Þannig sýna samantektarrannsóknir (e. systematic review) á ólíkum rekstrarformum hjúkrunarheimila að rekstrarafkoma hagnaðardrifinna heimila sé að jafnaði betri en þeirra sem eru óhagnaðardrifin en um leið að líðan hvoru tveggja starfsfólks og heimilisfólks sé almennt verri (Bos o.fl., 2017).
Frá stofnun Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins hefur forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar ítrekað kallað eftir að lífsskilyrði þeirra sem starfa við ræstingar verði rannsökuð. Ástæður þessa ákalls eru meðal annars þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfsumhverfi þeirra sem starfa við ræstingar. Nú í október kynnti Varða niðurstöður könnunar á stöðu og lífsskilyrðum þeirra sem starfa við ræstingar og voru niðurstöðurnar sláandi. Þær sýna verri fjárhagsstöðu, og lakari andlega heilsu auk þess sem hópurinn verður oftar fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði samanborið við launafólk innan ASÍ og BSRB sem er í öðrum störfum.
Mun verri fjárhagsstaða
Lýðfræðileg samsetning þeirra sem starfa við ræstingar er mjög ólík því sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði. Í raun eru ræstingar bornar uppi af innflytjendum (78%) og konum (74%). Menntun þeirra sem starfa við ræstingar er nokkuð áþekk annars launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Svipað hlutfall er með menntun á háskólastigi (30% á móti 29%), og grunnskólanám (19% á móti 20%) en hærra hlutfall er með stúdentspróf (27% á móti 19%).
Niðurstöður rannsókna Vörðu hafa ítrekað sýnt fram á verri fjárhagsstöðu og andlega heilsu meðal bæði kvenna og innflytjenda og það sama sést þegar staða þeirra sem starfa við ræstingar er greind sérstaklega. Hærra hlutfall fólks sem starfar við ræstingar samanborið við annað launafólk innan ASÍ og BSRB á nokkuð erfitt, erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman (59% á móti 43%), getur ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum (50% á móti 37%), býr við skort á efnislegum gæðum (18% á móti 9%) og hefur fengið mataraðstoð (3% á móti 1%).
Börn líða fyrir fjárskort
Þau lífsskilyrði sem birtast þegar staða þeirra sem starfa við ræstingar er greind sérstaklega kemur einnig fram þegar litið er til barna þeirra. Hærra hlutfall foreldra sem starfa við ræstingar, samanborið við foreldra í öðrum störfum, hefur , á síðastliðnum 12 mánuðum, ekki getað greitt fyrir kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða í skóla t.d. öskudagsbúning eða sérstakt nesti (14% á móti 6%), kostnað vegna félagslífs barna eins og að fara í afmæli til vinar (25% á móti 14%) og gefið börnum sínum afmælis- og/eða jólagjafir (33% á móti 14%).
Ástæður þessa ákalls eru meðal annars þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfsumhverfi þeirra sem starfa við ræstingar
Mun fleiri á almennum leigumarkaði
Staða launafólks …








