Alþjóðablað Vísbendingar nú í árslok, eins mesta kosningaárs í langan tíma, ber mikinn keim af þeirri umbreytingu sem á sér nú stað í alþjóðamálum um allan heim. Ein sú stærsta felst í því að 45. forseti Bandaríkjanna verður að nýju 47. forsetinn nú eftir áramótin. Ýmsar öflugar hugveitur – sem jafnvel stunda mikilsvirka útgáfu, bæði vestan hafs og á leiðinni austur fyrir fjall – fagna því mjög. Margar greinar blaðsins koma inn á áhrifin af endurkomu Trumps og tvær greinar fjalla beinlínis um Bandaríkin og aðrar tvær um Kína en hver með sínum hætti. Stríðsátök og efnahagslegar afleiðingar þeirra ásamt viðskiptaþvingunum og verndartollum setja einnig mark sitt á alþjóðamálefni nú um stundir.
Efnistök blaðsins eru yfirgripsmikil, frá Indlandi til Japan, um belti og braut Kína hingað til Keflavíkur og Kárhóls ásamt stöðunnar í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Evrópu. Efnisyfirlit blaðsins gefur mynd af því sem í vændum er fyrir lesendur blaðsins.
Á næsta ári er stefnt að því að gefa út fjögur þemablöð, ársfjórðungslega í samræmi við tilraunina fyrr í haust með húsnæðisblaði. Sumarblaðið í ár var helgað ferðamálum en um síðustu áramót beindum við sjónum að vinnumarkaðnum. Þökkum við öllum greinarhöfundum ársins kærlega fyrir samstarfið á árinu og áskrifendum fyrir lesturinn.
Höfundar í áramótablaðinu nú koma þrír utan háskólasamfélagsins með mismunandi og víðtæka þekkingu og reynslu. Sex höfundanna koma af ólíkum fræðasviðum í Háskóla Íslands, hugvísinda, sagnfræði og stjórnmálafræði, úr japönskum og kínverskum fræðum auk hagfræði. Þá eru tvö viðtöl í blaðinu, annars vegar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og reynslumikinn stjórnanda alþjóðlegra stofnana. Hins vegar við sænskan atvinnudiplómat, Clöru Ganslandt, sem er nýtekin við sem sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Loks endurvekjum við þann sið að birta ljóð í þessu áramótablaði, eins og venja var áður fyrr. Skáld Vísbendingar að þessu sinni er Bragi Ólafsson.
Út og aftur heim
Ritstjórinn Tom Stevenson skrifar um hina amerísku ægifegurð valdsins í London Review of Books þar sem hann lýsir eina kjörtímabili Bidens nú sem eins og einhverri Covid-truflun á hinu lengra Trump-tímabili. Það að skilja utanríkisstefnu Trumps er mjög ruglingslegt og umfjöllun um hann leiðist oft út í sálgreiningu, segir Stevenson. En endurkoma Trumps í forsetaembættið strax eftir áramótin er mögulega einn áhrifamesti viðburður ársins á alþjóðasviðinu enda kemur hann við sögu í mörgum af greinum áramótablaðsins.
Fjölmiðillinn Financial Times færir okkur fréttir af því nú í desember að siglingaleiðin um Norður-Íshafið geti opnast fyrr en áður var talið og jafnvel fyrir árið 2030. Loftslagsmálin verða á komandi ári líkt og á þessu eitt mikilvægasta málefnið á alþjóðasviðinu. Adam Tooze sagnfræðingur skrifar í sama blaði yfirlitsgrein um það hvernig Kína verði að leiða heiminn áfram í lausn loftslagsvandans. Evrópa hafi brugðist þrátt fyrir græna nýja sáttmálann þar sem lífskjarakrísan gerði loftslagsmálin afturreka og kreppa dísilbíla-iðnaðarins bæti ekki úr skák. Þó Tesla hafi, með ríkisstuðningi á tímum Obama, gert rafbílana kúl – þá er enga leiðsögn að finna nú frá Bandaríkjunum þrátt fyrir að Biden hafi tekist að lauma grænvæðingu í gegnum þingið með verðbólgulækkunarlöggjöfinni. Því sé Kína líklega okkar eina von um að leiða heiminn til aðgerða gegn loftslagsvánni, en til þess þarf kínverski kommúnistaflokkurinn að koma sér saman um það pólitískt og að yfirvinna jarðefnaeldsneytisþörfina miklu.
Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman gaf nú í allra síðasta pistli sínum í New York Times nokkurskonar aldarfjórðungs yfirlit á stöðu efnhagsstjórnmála. Hann minnir á hve við vorum öll bjartsýn í upphafi aldarinnar – en nú hafi dimmt yfir með reiði og biturleika. Hann telur bjartsýnina hafa horfið vegna þess að traustið til elítnanna hafi horfið. Trú fólks á að þau sem eru við stjórnvölinn viti hvað þau séu að gera er nú lítil – og mikið vantraust gagnvart því hvort þau séu heiðarleg. Biturleikinn og reiðin geta auðveldlega haft þær afleiðingar að slæmt fólk komist til valda. En á endanum áttar almenningur sig á að þeir stjórnmálamenn sem segjast berjast gegn elítunum eru sjálfir elítur. Þá eru þeir látnir standa reikningsskil gjörða sinna og því hví loforðin voru ekki efnd. Líklegast munum við aldrei endurheimta trúna á leiðtogana – þá trú að valdsmenn segi almennt sannleikann og viti hvað þeir eru að gera – eins og við höfðum áður, að mati Krugmans. Sem er eflaust ágætt segir hann. En aðeins ef okkur tekst að standa gegn kakistókrasíunni (g. κακιστοκρατία / e. kakistocracy) eða hrakræðinu – veldi hinna verstu – þá er möguleiki á að finna á endanum veginn áfram til betri heims.
Efnisyfirlit áramótablaðs 2024
Leiðari eftir Ásgeir Brynjar Torfason: Heimurinn endurraðast í óljósari mynd
Viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: Stöndum á þröskuldi nýrra tíma
Geir Sigurðsson: Fyllir Belti og braut upp í tómarúm Vesturveldanna – og Trumps?
Kristín Ingvarsdóttir: Vendingar í japönskum stjórnmálum
Jón Ormur Halldórsson: Verður Indland heiminum annað Kína?
Torfi H. Tulinius: Um vantraust á ríkisstjórn Michel Barnier í Frakklandi
Sigrún Davíðsdóttir: Bretland – eitt á báti eða annars: í hvaða liði?
Dagfinnur Sveinbjörnsson: Vald verðleikanna og úrslitin í Bandaríkjunum
Silja Bára Ómarsdóttir: Utanríkisstefna Bandaríkjanna á nýju valdatímabili Trumps
Valur Ingimundarson: Pólitískar túlkanir á samskiptum Íslands og Kína
Þorvaldur Gylfason: Evran: Handan við hornið?
Viðtal við Clöru Ganslandt: Evrópa er að breytast
Aðrir sálmar: Ljóð og smáþjóðir
Bragi Ólafsson: Frá heimsþingi esperantista