Til baka

Aðrir sálmar

Kína og umheimurinn

Minni stuðningur hins opinbera við kínverska hagkerfið lætur hlutabréfamarkaði lækka. Árangur við efnahagsstjórn landsins hefur áhrif á hagsæld í heiminum. Vísbending vikunnar fjallar öll um Kína.

bækur

Kína er næst stærsta efnahagsveldi heims. Stjórnarfarsleg efnahagsstjórn Kínverja er stundum kölluð kommúnísk, en á faglega mælikvarða út frá hagtölum verður ekki betur séð en að þar stýri kapítalískir kraftar miklu – en ekki öllu. Vissulega fá þeir kraftar að toga hagvöxtinn áfram, innan ramma sem að stjórn kommúnistaflokksins markar, og með öflugum stuðningi yfirvalda.

Sögulega verður ekki annað viðurkennt en að uppgangur undanfarinna þriggja áratuga sýni dæmi um sérstaklega mikinn tilflutning fólks úr fátækt sveitanna til borgarsamfélaga í vestrænum anda. Farið er fræðilega yfir stöðugar spár um hrun í Kína í fyrri grein blaðsins og í þeirri seinni er farið faglega yfir hagvaxtarsöguna og áskoranir í nútímanum. Höfundi hennar, Svein Harald Øygard, var óvænt boðið að gerast bráðabirgða-seðlabankastjóri á Íslandi árið 2009. Það er eftirtektarvert að saga Norðmannsins sem stóð Í víglínu íslenskra fjármála sé nú fimmtán árum síðar valin viðskiptabók ársins 2023 í Kína.

Screenshot 2024-10-17 110708

Önnur bók sem hlotið hefur lofsverða umfjöllun byggir á samanburðarrannsókn sem Isabella M. Weber gerði á þróun Kína og Rússlands eftir að kaldastríðinu lauk og við fall járntjaldsins. Línuritið hér til hliðar er fengið úr þeirri bók og sýnir vel vöxt Kína í hlutfalli landsframleiðslu heimsins og hvernig skyndileg einkavæðingar meðferð nýfrjálshyggjunnar leiddi ekki til uppgangs Rússlands.

Nú standa afdrifaríkar kosningar fyrir dyrum í næsta mánuði í Bandaríkjunum sem enn er stærsta efnahagsveldis heims. Tollar á viðskipti með vörur frá Kína fara vaxandi, þar sem og í Evrópu – því hefur sjaldan verið mikilvægara að skoða og skilja sögu Kína í efnahagslegu tilliti. Sjálfbær hagvöxtur, mældur réttilega og á mann, drifinn áfram af aukinni framleiðni er lykill að hagsæld – þar eins og annarsstaðar.

Næsta grein