
Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á samfélög, vistkerfi og veðurfar á heimsvísu. Áraun á byggingar mun aukast, þó erfitt sé að segja nákvæmlega til um hvernig, en reikna má með tíðari ofsaveðrum, öflugri vindum, breytingum á hita- og rakastigi í lofthjúp, meiri úrkomu, hækkun sjávarmáls og aukinni flóðahættu.
Við höfum nýlega upplifað heimsfaraldur og lærðum þá hvernig byggingar geta veitt mismunandi öryggi vegna smithættu. Hönnun loftræsikerfa og virkni loftskipta skipta sköpum og geta verndað gegn smithættu.
Ísland er einstakt
Ísland stendur frammi fyrir einstökum áskorunum þar sem byggingar þurfa að vera hannaðar og byggðar til að þola jarðhræringar og eldsumbrot. Við eldgos getur komið öskufall, loftgæði skerðast og varasamar gufur berast út í andrúmsloftið. Loftræsikerfi með góðum síubúnaði draga úr áhættu vegna öskufalls eða mengunar. Einnig þarf sérstaklega að huga að brunahönnun og eldvörnum í byggingum á jarðhræringasvæðum.
Byggingar og lýðheilsa
Lýðheilsa gegnir lykilhlutverki í velferð Íslendinga. Góð heilsa stuðlar að betri lífsgæðum, aukinni framleiðni og lægri heilbrigðiskostnaði. Loftgæði, umgjörð og innivist í byggingum spilar þar lykilhlutverk. Byggingar eru okkur lífsnauðsynlegar og veita skjól gegn náttúruöflum.
Breytt heimsmynd
Með breyttri heimsmynd þurfum við að huga að því að byggja og hanna til framtíðar, huga að sjálfbærni og vistvæni, tryggja aðgengi allra að byggingum og að byggingar ógni ekki öryggi, heilsu eða vellíðan.
Hús þurfa að standa úti
Til að geta tryggt sjálfbærni í byggingariðnaði þurfum við að byggja hús sem standast veðuráraun, íslenskar aðstæður og endast hefðbundinn líftíma þeirra. Gallar í nýbyggingum valda því að fara þarf í ótímabært viðhald. Til dæmis að skipta út nýlegum gluggum, þökum eða klæðningum áður en hámarks endingu er náð og í verstu tilfellum á byggingarstigi. Núverandi byggingar á mismunandi aldri og með fjölbreyttu byggingarlagi þurfa viðhald og endurbætur og um leið aðlögun að breyttum aðstæðum. Þessar byggingar uppfylla ekki endilega kröfur um loftgæði, orkunýtingu eða veðurþol en þurfa að standa áfram og þjóna sínum tilgangi, veita fólki öruggt skjól.
Hús sem leka
Leki í byggingum vegna veðurálags er oft tengdur gluggum og þökum. Útveggir og sérstaklega þök eru eðli málsins samkvæmt mest útsett fyrir álagi vegna veðurs. Gluggar, hurðir og ísetning getur verið áskorun. Umræða hefur skapast um kröfur til glugga til að þola íslenskt veðurfar. Þá eru fagaðilar ekki á einu máli um hvernig eigi að þétta glugga. Gerð veggja er mismunandi og því þörf á mismunandi útfærslum, efnisnotkun, gluggagerð og aðferðum hverju sinni. Hönnun, uppsetning og frágangur á þökum er einnig mismunandi eftir þakgerð.
Ný efni á markaði
Ný efni og lausnir í byggingariðnaði bjóða upp á spennandi tækifæri, en íslenskar aðstæður gera sérstakar kröfur. Þessi efni og lausnir hafa ekki endilega verið prófaðar fyrir íslenskt veðurfar eða aðstæður. Í fæstum tilfellum hefur byggst upp þekking eða reynsla við notkun þeirra, umhirðu og viðhald. Reynslan hefur þó sýnt okkur að sum efni sem virka vel erlendis hafa ekki endilega sama þol eða virkni hérlendis. Nauðsynlegt er að prófa nýjar aðferðir og efni áður en þau eru notuð í byggingar til að tryggja að þau standist kröfur og endingu við íslenskar aðstæður.
Við efnisval og val á útfærslum í byggingum þarf að huga að heilnæmi þeirra, endingu, álagsþoli, kolefnisspori, möguleika á endurnýtingu og hagkvæmni við rekstur. Þetta eru miklar áskoranir og ábyrgð fólgin í því að kynna ný efni á markað.
Rakavandamál í byggingum eru í beinni andstöðu við sjálfbærni og vistvænar byggingaraðferðir
Rakaskemmdir og lýðheilsa
Raki vegna rakaþéttingar, úrkomu, jarðvatns eða flóða er helsti orsakavaldur að ending húsa skerðist og þau skemmast. Þar sem raki eða vatn nær í gljúp eða lífræn byggingarefni ná að vaxa upp örverur sem hefjast handa við niðurbrot byggingarefna og grotnun hefst. Þessu ferli fylgja myglusveppir, geislabakteríur, bakteríur, veirur og aðrar lífverur auk efna sem losna úr læðingi við niðurbrot byggingarefna og starfsemi örvera. Í þeim byggingum þar sem leki eða raki er viðvarandi, breytast loftgæðin og versna til muna, samanborið við hús sem hafa verið þurr, eru með heilnæmum byggingarefnum og vel loftræst. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni eru rakaskemmdir í byggingum áhættuþáttur fyrir heilsu og inniloft í byggingum veigamikill …








