USD 127,8
EUR 148,8 -0,1%
GBP 170,5 0,1%
DKK 19,9 -0,1%
SEK 13,6 -0,1%
NOK 12,7 0,1%
CHF 158,9 -0,4%
CAD 91,7 0,3%
JPY 0,8 -0,3%
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 3,7%
Mannfjöldi 393.160
USD 127,8
EUR 148,8 -0,1%
GBP 170,5 0,1%
DKK 19,9 -0,1%
SEK 13,6 -0,1%
NOK 12,7 0,1%
CHF 158,9 -0,4%
CAD 91,7 0,3%
JPY 0,8 -0,3%
Stýrivextir 7,2%
Verðbólga 3,7%
Mannfjöldi 393.160
Til baka

Grein

Óend­an­legt magn af­þrey­ing­ar

Sérsniðið slor fyrir hvern og einn

Stórfótur og Snjómaðurinn
Skjáskot úr myndböndum af Stórfæti og Snjómanninum sem koma úr smiðju nýjasta myndbandslíkans Google sem ber heitið Veo 3.
Mynd: Youtube

Hver verður afþreying framtíðarinnar? Þessi spurning hefur orðið áleitnari eftir að algjörlega gervigreindarsmíðuðum myndböndum af bæði Stórfæti og Snjómanninum ógurlega að stunda útivist var hlaðið upp á netið fyrir stuttu. Er þar líkt eftir geysivinsælum myndböndum á YouTube þar sem fjölskyldufaðir kennir áhorfendum á lífið í óbyggðum Norður-Ameríku. Auðvelt er að finna þessi myndbönd með því að leita að „bigfoot vlog“ á YouTube og það er vel þess virði að skoða þau. Myndböndin bera það með sér að vera búin til af gervigreindarlíkani en það sést líka vel að það er ekki langt þangað til ómögulegt verður að vera viss um það. Þessi myndbönd eru vissulega súrrealísk en eru líka fyndin og marglaga á sinn hátt. Þau eru ákveðin stæling á þekktum gerðum útivistarmyndbanda þar sem aðalpersónunni hefur verið skipt út fyrir ævintýraveru með „sjálfustöng“. Hún virðist svo raunveruleg að fyrir nokkrum mánuðum var aðeins á færi stærstu kvikmyndaframleiðenda að skapa hana á sannfærandi hátt.

Myndböndin koma úr smiðju nýjasta myndbandslíkans Google sem ber heitið Veo 3 og er fært um að skapa ískyggilega raunveruleg myndbönd með hljóði. Hvernig handrit þessara myndbanda eru búin til er að einhverju leyti á huldu en leiða má líkur að því að stór hluti þeirra komi frá spjallpésum (e. Large Language Model Chatbot) á borð við ChatGPT, Gemini eða Deepseek.

Skynfæri okkar eru svo að sjálfsögðu mötuð með þessu í gegnum samfélagsmiðla og meðmælalíkön þeirra sem eru á sinn hátt einnig gervigreind. Það má því segja að afþreyingarefni okkar nú um stundir sé frá upphafi til enda spunnið upp og dreift af gervigreindarlíkönum. Þetta er undraverð þróun. Hvað er hversdagslegra en að neyta afþreyingarefnis? Hvað er framandlegra en að neyta gervigreindarskapaðs afþreyingarefnis? Furðuleg þversögn, ekki satt? En ef svona afþreyingarefni er virkilega skemmtilegt og sérsniðið að áhuga áhorfenda, er það ekki bara æðislegt? Ef persónulega sérsniðin fjöldaframleiðsla á efni gerir það að verkum að listafólk þarf skyndilega að finna sér aðra vinnu en listina, því enginn þarf að kaupa verkin þeirra, er það æðislegt líka?

Gervigreind alla leið niður

Það er nokkuð ljóst að menning okkar stefnir hraðbyri að sjálfvirknivæðingu í afþreyingarsköpun. Miðað við hvað þróun gervigreindarlíkana (e. Artifical Intelligence AI) sem „skrifa“ prósa, „mála“ myndir og „skapa“ myndbönd hefur gengið hratt fyrir sig þá er augljóst að tæknin og framfarir hennar verði ekki takmarkandi þáttur í innleiðingu spunagreindar (e. Generative AI) á þessu sviði. Ekkert hindrar að hægt verði að skapa myndbönd persónulega sniðin að hverjum og einum, þinn eigin algóriþmi í afþreyingu frá A til Ö, með svolitlu af auglýsingum inn á milli. Þín neyslumynstur verða svo notuð til að gera algóriþmann enn þá betri í að gefa þér akkúrat innanhússhönnunar-, matreiðslu- eða hálfkynferðislegu dansmyndböndin sem þú vilt en vissir ekki að þú vildir, sem gerast í húsi sem er ekki til, kynnt af manneskju sem er ekki til. Allt sérhannað fyrir þig til þess að láta þig horfa eins lengi og hægt er en sleppa þér svo, en aðeins til þess að kaupa nýju róbótaryksuguna frá uppáhalds tæknisamsteypunni þinni af því hún er algjör snilld.

Það er ómögulegt að fullyrða að þetta verði einmitt svona, en það er heldur engin augljós hindrun frá tæknihliðinni sem kemur í veg fyrir það. Myndböndin sem gervigreindin er farin að gera nú þegar eru fyndin. Myndböndin sem eru mötuð ofan í notendur af meðmælalíkönum í dag eru áhugaverð fyrir hvern og einn. Gervigreindartækni er smíðuð til að verða sífellt betri og hún mun verða það. Auðvitað er margt jákvætt og spennandi við framþróun í gagnavísindum eins og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, framþróun í lyfja- og læknavísindum (CRSPR og AlphaFold), sjálfvirknivæðing leiðinlegra starfa, þróun vélmenna og margt fleira. Sumir notendur tala við spjallpésa um persónuleg vandamál sín í eins konar sálfræðitíma vegna þess að þau hafa ekki efni á að ganga til sálfræðings. Einhverjum kann ekki að hugnast þetta en heilt yfir virðist þetta vera jákvæð þróun, tæknin getur hjálpað fólki að líða betur.

Stórfótur upp í tré
Stórfótur upp í tré í fjöllunum að gera kennslumyndbönd um heilbrigðan lífstíl og matseld með sjálfustöng.
Mynd: Youtube

Vaðandi slor upp fyrir hné

Á sama tíma og þessi tækni er hluti af framtíðinni er hún gjörsamlega óþolandi. Hugtakið „AI slop“ sem þýða mætti sem gervigreindarslor hefur verið notað undanfarið yfir ómennskuna í gervigreindarefni. Uppblásið og útþynnt. Innihaldslaust. Þetta á við um það ótrúlega magn efnis sem hægt er að framleiða núna án nokkurrar vinnu, bara með því að segja tölvunni að fara af stað og dæla út slori. Tónlistargeirinn hefur ekki farið varhluta af þessu. Fólk dælir út lögum á tónlistarveitur sem tölvur hafa skapað og kallar sig svo tónlistarfólk. Lögin sem eru gefin út eru mörg líka orðin góð. Þú telur þig kannski geta heyrt sálina í „alvöru“ tónlist, en það er bara ekki lengur rétt. Mörg þessara gervigreindarlaga vekja sömu tilfinningar eins og hvert annað popplag. En svo er það magnið. Magnið gerir þetta að slori. Það er eitthvað merkilegt við það sem hefur kostað blóð, svita og tár að skapa, það sem er ekki á allra færi. Það hefur jafnan verið galdur að semja lag sem snertir við fólki. Núna er það ekkert mál. Hver er þá galdurinn núna? Skiptir máli að vita að list var búin til af listamanni eða er verkið sjálft nóg? Er nóg að verkið sé gott til að við getum notið þess?

Hvaða áhrif hefur það á líf okkar og á internetið að við getum ekki greint á milli þess sem er skapað af manneskjum og vélum? Hvað gerist þegar allt efni er orðið svo raunverulegt að við getum ekki treyst neinu á netinu? Munu samskipti augliti til auglitis öðlast nýtt vægi? Þegar við getum ekki treyst því að myndbandið af fréttamanninum sem lýsir hamförum sé ekta, munum við þá þurfa að fara sjálf á vettvang og sjá hörmungarnar með eigin augum til að trúa þeim? Við gætum verið að stefna inn í þann raunveruleika að internetið missi allan sinn trúrverðugleika.

Geturðu ímyndað þér að amma þín fái myndsímtal frá þér þar sem þú grátbiður hana um pening því þú lentir í svo miklum vandræðum. Þú ert raunveruleg(ur), röddin þín með réttum blæbrigðum, andlitið þitt með hrukkurnar á réttum stöðum. Upphæðin ekki það mikil að amma hugsi sig tvisvar um. Og hvað þá með bankann þinn, eða maka? Hverju er hægt að treysta lengur þegar internetið er annars vegar?

Raunveruleg afþreying framtíðarinnar

Mörgum kann að finnast meira spennandi að horfa aðeins lengra inn í framtíðina. Ekki svo langt samt. Hvenær ætli við náum að skilja heilann okkar nægilega vel til að tæknin samlagist honum? Þetta hljómar vissulega eins og vísindaskáldsaga en afþreying framtíðarinnar gætu orðið minningar. Gagnavísindi munu gera okkur kleift að gera meira en einungis skapa myndbönd, prósa og tónlist, hún mun hjálpa okkur að skilja innri starfsemi líkama okkar. Þessi tækni hefur nú þegar gefið okkur betri skilning á erfðaefni mannsins og prótínum og næsti vígvöllur verður heilastarfsemin.

Gleymdu snjallsíma og sýndarveruleika. Á næsta leiti eru mögulega heilaflögur sem vekja upp tilfinningar í okkur. Heilaflaga sem getur endurspilað upplifanir. Framtíðin býður okkur í veislu. Þú getur tekið upp mikilvægustu augnablikin í lífi þínu og endurspilað þau hvenær sem þú vilt. Þér býðst jafnvel að fara inn á minningarstreymisveitu og velja úr öllum bestu upplifunum heimsins. Þú átt þinn uppáhalds minningarsmið sem hefur klifið Everest, eytt heilu dögunum í ósnortinni náttúru íslensks hálendis, gifts draumamakanum. Þú getur upplifað allar þessar minningar og allar þessar tilfinningar í gegnum taugaboðin sem heilaflagan þín býr til. Nokkur rétt staðsett rafboð og þú finnur fyrir tilfinningunni að halda á nýfæddri dóttur þinni, þegar hún dregur fyrstu andardrættina á heitum líkama þínum, sveittum og adrenalínfylltum. Þú getur deilt minningum af fríinu þínu með vinum þínum eins og að deila myndum á Instagram. Hvernig var fyrsti koss besta vinar þíns? Ekkert mál, hann deilir með þér minningunni sinni um hann. Hvernig var að vera Stórfótur í fjöllum Norðvestur-Ameríku að gera kennslumyndbönd um lífið og tilveruna í góðum félagsskap með Snjómanninum ógurlega? Þú upplifir flóð tilfinninga, ákvarðana og raunveruleika eins og það sé að koma fyrir þig hér og nú, hvort sem það er minning sem heilaflagan tók upp og varðveitir að eilífu, eða minning sem var búin til af tæknisamsteypu með hjálp gervigreindar til að selja æðislega róbótaryksugu.

Næsta grein