Umbreytingarafl tækninnar birtist í mismunandi umgjörðum hagkerfisins, svo sem streymisveitu-, eftirlits-, hamfara- og anarkó-kapítalisma.
Árið 2016 lýsti kanadíski hagfræðingurinn Nick Srnicek þróun tæknilegrar auðsöfnunar á tuttugustu og fyrstu öldinni með hugtakinu streymisveitukapítalismi og lagði áherslu á þá augljósu hagræðingarmöguleika sem felast í viðskiptamódelum AirBnB, Uber, Spotify, Youtube, Facebook, Instagram og TikTok.
Mesti vaxtarbroddurinn í hagkerfi streymisveitnanna er þó vafalaust falinn í takmarkalítilli gagnasöfnun um atferli, áhugasvið, neyslumynstur, staðsetningu, starf, stétt, efnahag, kyn og aldur, lífsskoðanir og fjölda annarra sálfélagslegra staðreynda um notendur þeirra. Þetta er lykilatriði í greiningu bandaríska tækniheimspekingsins Shoshönnu Zuboff á eftirlitskapítalisma, en í bókinni Öld eftirlitskapítalismans varpar hún ljósi á ýmsar skuggahliðar tækniþróunar undanfarinna áratuga.
Hún ræðir þar sérstaklega tilhneigingu tæknifyrirtækja til þess að ganga skefjalaust fram í söfnun og nýtingu persónuupplýsinga. Fyrirtæki á borð við Alphabet, sem rekur Google, og Meta, sem rekur Facebook og Instagram, treysta á að flestir neytendur láti sér fátt um finnast um viðskiptahætti þeirra og annarra tæknirisa. Gerist þau brotleg við lög geta fyrirtækin treyst því að sektirnar blikni hreinlega í samanburði við hagnað þeirra. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði nýverið 2,95 milljarða evru sekt á Google vegna brota fyrirtækisins á löggjöf sambandsins um persónuvernd. Ársfjórðungshagnaður Alphabet á sama tíma nam meira en 100 milljörðum bandaríkjadollara, um 86,5 milljörðum evra. Loks hafa bandarísk tæknifyrirtæki gjarnan getað reitt sig á aðgerðarleysi eða jafnvel greiðvikni stjórnmálamanna enda voru viðbrögð Donalds Trump við sektum framkvæmdastjórnarinnar hótanir um aukna tolla á Evrópusambandið.
Nú eru liðin þó nokkur ár síðan að Srnicek og Zuboff kváðu sér hljóðs og hugmyndir þeirra fyrir löngu orðnar hluti af meginstraumnum, meðal annars fyrir tilstilli enn einnar streymisveitunnar. Heimildarmyndin The Great Hack úr smiðju Netflix, sem kom út árið 2019, fagnaði til að mynda miklum vinsældum en hún fjallar með áhrifaríkum hætti um þátt Facebook og ráðgjafafyrirtækisins Cambridge Analytica í því að tryggja kjör Trumps í bandarísku forsetakosningunum 2016. Það var gert með því að safna persónuupplýsingum með ólöglegum hætti á samfélagsmiðlinum og herja svo gagngert á skýrt skilgreinda hópa kjósenda með sérsniðnum áróðursherferðum.
Kapítalismi bláu pillunnar
Gervi- og spunagreindir hafa valdið grundvallarbreytingum á rekstrarumhverfi tæknifyrirtækja á allra síðustu árum og að mati þýska félagsfræðingsins Hennings Meyer birtast þær meðal annars í ákveðinni tilfærslu frá vægi einskærrar gagnasöfnunar í átt til aukinnar einangrunar og sefjunar notenda.
Hugtak Meyers vísar til þekktrar senu úr kvikmynd Wachowski-systranna, Fylkið (The Matrix, 1999) þar sem byltingarleiðtoginn Morfeus býður aðalsöguhetjunni Neo að velja sér eina pillu, annað hvort rauða eða bláa. Velji Neo bláu pilluna, vaknar hann í svefnherberginu sínu án þess að muna nokkuð frá kynnum sínum af hópi fólks sem vill sannfæra hann um að veruleiki hans sé lítið annað en tölvustýrð blekking. Rauða pillan gerir það aftur á móti að verkum að Neo vaknar úr dái í tanki af fósturvökva, innan um ógrynni annarra samskonar tanka. Í hverjum tanki liggur sofandi manneskja. Saman mynda tankarnir akra þar sem mannslíkamar eru ræktaðir til að knýja vitvélar sem náð hafa yfirráðum á jörðinni og eru við það að útrýma þeim örfáu mannverum sem enn lifa á jörðinni og eru ekki tengdar við Fylkið.
Meyer telur myndlíkinguna um bláu pilluna hverfast um valið á milli þægilegrar blekkingar og harkalegs raunveruleika og lýsir þróuninni frá eftirlitskapítalisma til sefjunarhagkerfisins með eftirfarandi orðum:
„Eftirlitskerfi sem áður söfnuðu einvörðungu persónulegum upplýsingum hafa vígbúist í krafti þessara sömu upplýsinga og fanga nú notendur í vandlega smíðuðum óraveröldum, mata þá af efni með …









