Til baka

Grein

Smálöndum vegnar vel

Þeirri skoðun heyrist stundum fleygt þegar á móti blæs að Ísland sé of lítið, þ.e. of fámennt, og landinu geti því ekki til lengdar vegnað eins vel og stærri og mannfleiri löndum.

Reykjavík
Mynd: Unsplash

Fyrir bráðum aldarfjórðungi lagðist ég yfir rökin með og á móti þessari skoðun og lagði tölulegt mat á þau með því að bera efnahagslíf 26 eyríkja þar sem íbúafjöldinn náði frá 100.000 upp í 1,3 milljónir saman við heiminn í heild, 207 lönd þá. Ég lýsti niðurstöðunum í nokkrum fyrirlestrum og greinum innan lands og utan, m.a. á vettvangi Evrópusambandsins í Brussel og á alþjóðlegri ráðstefnu í Harvard-háskóla. Ég vitnaði í Einar Benediktsson, þjóðskáldið sem sagði mannfæðina vera „mesta félagsböl Íslendinga“. Það hallaði samt ekki á smálöndin í þessum samanburði mínum, öðru nær, því þau reyndust búa við 40% hærri þjóðartekjur á mann að jafnaði en heimsbyggðin í heild.

Gögnin sýndu m.a. að smálöndin voru að jafnaði opnari fyrir erlendum viðskiptum en önnur lönd, lögðu meiri rækt við menntun barna og unglinga og vörðu meira fé til fjárfestingar í vélum og tækjum. Niðurstöðurnar voru tölfræðilega marktækar.

Þetta þrennt – viðskipti, menntun og fjárfesting – skiptir máli fyrir vöxt og viðgang efnahagslífsins og það gera einnig ýmsar stærðir aðrar.

Aðalatriðið í niðurstöðunum um aldamótin 2000 virtist vera að smálöndin bættu sér upp ýmislegt óhagræði vegna smæðar og fámennis, t.d. einhæfni efnahagslífsins, með líflegum viðskiptum við önnur lönd.

Ný gögn, ný atlaga

Nú langar mig að hverfa aftur að þessari mikilvægu spurningu um smálönd í ljósi nýrra gagna og nýrra áherzlna í hagvaxtarfræðum til að athuga hvort fyrri niðurstöður mínar og annarra um stöðu smálanda hafa staðizt tímans tönn. Ég skoða nú 33 eylönd þar sem íbúafjöldinn nær frá 50.000 upp í eina milljón til að bera þau saman við heiminn í heild, nú 217 lönd. Þetta þýðir að Færeyjar og Grænland fá nú að vera með en þau náðu ekki vegna fólksfæðar inn í fyrra úrtakið. Aðeins eylönd koma til skoðunar og því er t.d. landluktum smáríkjum haldið utan við úrtakið. Löndin 33 eru Antígva og Barbúda, Arúba, Bahamaeyjar, Bandarísku Jómfrúaeyjar (eða Meyjaeyjar), Barbados, Bermúda, Caymaneyjar, Channel Islands (sem mætti kalla Sundaeyjar), Comoros, Curacao, Dóminíka, Færeyjar, Fijieyjar, Franska Pólýnesía, Grænhöfðaeyjar, Grænland, Grenada, Gvam, Ísland, Kíribatí, Maldíveyjar, Malta, Míkrónesia, Mön, Nýja-Kaledónía, Salómonseyjar, Samóa, Sankti Lúsía, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar, Saó Tóme og Prinsípe, Seychelleseyjar, Tonga (öðru nafni Vináttueyjar) og Vanúatú.

Sum þessara smálanda eru sjálfstæð ríki, en ekki öll, t.d. ekki Færeyjar og Grænland.

Spurningin um stöðu smálandanna er mikilvæg. Ef smálöndum virðist ekki hafa vegnað eins vel og stærri löndum, þá geta smálöndin annaðhvort þurft að sætta sig við að vera eftirbátar annarra landa í efnahagslegu tilliti, sameinast þeim eða stækka sjálf með því að fjölga íbúum sínum til muna og þá jafnvel margfalda mannfjöldann líkt og Einar Benediktsson og aðrir lögðu til.

Hvert er svarið? Ef smálöndunum hefur ekki vegnað vel smæðarinnar vegna, hvað eiga þau þá til bragðs að taka? Skila lyklunum? Hvert?

stada33jasmalanda

Tafla 1 dregur saman helztu niðurstöður samanburðarins.

Landsframleiðsla og langlífi

Landsframleiðsla á mann í smálöndunum er nú næstum 90% meiri en í heiminum í heild. Þau hafa því aukið forskot sitt frá fyrri athuguninni þar sem munurinn var 40% þeim í vil. Þessar tölur sýna framleiðsluna en ekki kaupmátt hennar þar eð kaupmáttartölur um smálöndin liggja ekki fyrir. Við bætist að íbúar smálandanna lifa rösklega þrem árum lengur en heimsbyggðin í heild.

Smálöndin eru opnari fyrir erlendum viðskiptum en önnur lönd yfirleitt, þ.e. útflutningur vöru og þjónustu er mun hærra hlutfall af landsframleiðslu en tíðkast um heiminn. Þetta sýnir að smálöndin reiða sig að réttu lagi á erlend viðskipti til að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar. Samanburðurinn sýnir enn fremur að smálöndin senda mun hærra hlutfall af hverjum árgangi æskufólks í framhaldsskóla en önnur lönd. Einnig þetta styrkir stöðu smálandanna. Á hinn bóginn er fjárfesting engu meiri í smálöndum en annars staðar yfirleitt. Sem sagt: smálöndin hafa vinninginn í erlendum viðskiptum og menntun, en ekki fjárfestingu.

Smálöndunum hefur tekizt betur en öðrum löndum yfirleitt að tileinka sér nútímalega lifnaðarhætti. Þetta sést m.a. á því að þeim hefur lánazt betur en öðrum að draga úr umfangi landbúnaðar í efnahagslífinu til að rýma fyrir iðnaði, verzlun og þjónustu sem gefa jafnan meira af sér en landbúnaður og einnig að hagnýta tölvutækni og tengingar nútímans.

Lýðræði, gegnsæi, lög og réttur og jöfnuður

Lýðræði í 33 smálöndum

Tafla 2 sýnir að minna hallar á lýðræði í smálöndum en í heiminum öllum á heildina litið. Gögn frá Freedom House um frelsi og lýðræði ná yfir 21 af smálöndunum 33 í úrtakinu sem hér er til skoðunar og meðaleinkunn þeirra fyrir lýðræði er 80,7 stig af 100 mögulegum borið saman við 59,3 stig fyrir heiminn í heild. Tölur Lýðræðisstofnunar Gautaborgarháskóla ber að sama brunni. Meðaleinkunn fyrir lýðræði í smálöndunum 11 sem gögnin frá Gautaborg ná yfir er 0,53 borið saman við 0,40 fyrir heiminn i heild, 178 lönd. Vísitalan nær frá 0 í einræðislöndum upp í 1 við óskorað lýðræði. Smálöndin hafa betur.

En spilling? Transparency International raðar 180 löndum eftir meintri spillingu. Tölurnar ná þó aðeins yfir 16 af smáríkjunum 33 sem hér eru til skoðunar. Þar af eru 15 lönd fyrir ofan meðallag, þ.e. ofan við 90. sæti í gegnsæisröðinni og búa eftir því við minni spillingu en heimsbyggðin í heild, með aðeins einni undantekningu (Comoros er í 167. sæti).

Bandaríska lögfræðingafélagið heldur úti stofnun, World Justice Project, sem gefur æ fleiri löndum, nú 126, einkunnir fyrir dómskerfi og réttarfar. Í þeim átta löndum af smálöndunum 33 sem hér eru til skoðunar er meðaleinkunnin 6,2 borið saman við 5,5 að meðaltali fyrir öll löndin 126 í úrtakinu þar sem Ísland er ekki enn haft með. Enn hafa smálöndin betur.

Gögn um tekjuskiptingu eru stopul en þau ná þó nú með ýmsum eyðum yfir 15 af smálöndunum 33 í úrtakinu og 161 land af 217 séu þau öll tekin með í reikninginn fyrir árin 2000-2021. Meðaltal Gini-stuðulsins sem lýsir ójöfnuði í tekjuskiptingu í þessum 15 smálöndum er 38,5 þessi ár, sama gildi og fyrir heildina, öll löndin 161. Til samanburðar eru Gini-stuðlar Danmerkur, Frakklands og Bandaríkjanna að meðaltali þessi ár 26,9, 32,0 og 40,8.

Félagsvísa á borð við lýðræði, spillingu, lög og rétt og misskiptingu var ekki hægt að hafa með í fyrri samanburði smálanda við stærri lönd þar eð gagnasöfnun um þessa þætti var þá svo skammt á veg komin. Enn er staðan þannig að tiltæk gögn um traust á stofnunum og milli manna ná ekki yfir neitt af þeim smálöndum sem hér eru til skoðunar nema Ísland. Að svo stöddu er því ekkert hægt að segja um traust í smálöndum borið saman við umheiminn.

Opnar gáttir

Kostir og gallar smæðar og fólksfæðar skipta máli.

Færeyjar eru nærtækt dæmi. Færeyska þjóðin er enn sem fyrr þverklofin í afstöðu sinni til þess hvort hún eigi að stíga skrefið sem Íslendingar stigu 1944 þegar við stofnuðum lýðveldi og lýstum yfir fullu sjálfstæði. Færeyingar eru færri nú en við vorum þá, en þeir eru miklu ríkari því tekjur á mann í Færeyjum eru mun hærri nú en þær voru þá á Íslandi. Þetta er samt ekki aðalatriði málsins, heldur hitt að smáríkjum getur gengið vel í efnahagslegu tilliti enda sýnir reynslan að þeim hefur vegnað vel á heildina litið.

Smæð er ekki frágangssök. Henni fylgja ókostir, rétt er það, en til eru þekkt ráð til að sigrast á þeim, einkum mikil og góð samskipti og viðskipti við önnur lönd, opnar gáttir. Reynsla víðs vegar að bendir til að Færeyingar þurfi því ekki að óttast fullt sjálfstæði gæti þeir þess að haga málum sínum hyggilega. Sjálfstæði ákveða þjóðir yfirleitt að taka sér einkum af félags- og menningarástæðum frekar en efnahagsástæðum líkt og ungt fólk sem flytur út frá foreldrum sínum til að hefja sjálfstætt líf á eigin vegum.

Færeyingar geta litið til Íslands. Fáir Íslendingar líta svo á að réttast væri að bregðast við ýmsum landlægum vandamálum hér innan lands með því að skila lyklunum aftur til Kaupmannahafnar. Jafnvel þótt samanburðurinn sem hér er kynntur til sögunnar hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að smæð og fólksfæð virtust halda aftur af lífskjörum fólksins í landinu myndu flestir telja eftir sem áður að rétt viðbragð við slíkri niðurstöðu væri að snúa vörn í sókn frekar en að fórna sjálfstæðinu.

Ein leiðin til að halda sjálfstæðinu og treysta er einmitt að deila því með öðrum, t.d. á vettvangi Evrópusambandsins.

Heimildir

  1. Alesina, Alberto, and Enrico Spolaore (2003), The Size of Nations, MIT Press.
  2. Þorvaldur Gylfason (2005), Smálandafræði og föðurlandsást, Fréttablaðið, 17. nóvember.
  3. Þorvaldur Gylfason (2009), Er Ísland of lítið?, Fréttablaðið, 13. ágúst.
  4. Þorvaldur Gylfason (2009), Is Iceland too small?, VoxEU, 19. ágúst.
  5. Þorvaldur Gylfason (2011), Barbados vegnar vel, takk fyrir, Fréttablaðið, 3. febrúar.
  6. Þorvaldur Gylfason (2011), Erum við of fá?, Fréttablaðið, 12. maí.
  7. Þorvaldur Gylfason (2020), Fámenni: Félagsböl eða blessun?, Stundin, 21. febrúar.

Næsta grein